Markaðsátakið Inspired komið vel áleiðis
Markaðsátakið Inspired by Iceland í samvinnu ferðaþjónustufyrirtækja, ríkisins og Reykjavíkurborgar er komið vel áleiðis. Þjóðarátak um tónlistarmyndband á vefnum og útitónleikar í Hljómsskálagarðinum, sem sendir voru út á Internetinu, hafa verið mest áberandi hérlendis.
Nú er að ljúka birtingum á auglýsingum átaksins í vefmiðlum, dagblöðum, neðanjarðarlestum, strætisvögnum og á stórum útiskiltum í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Danmörku og Noregi. Slíkar birtingar eru nú hafnar í Svíþjóð og Bandaríkjunum og hefjast senn í Hollandi. Í heildina eru auglýsingar birtar í miðlum sem ná til tugmilljóna manna. Fjöldi blaðamanna og ferðaþjónustheildsala hafa komið til landsins í tengslum við viðburði hérlendis á vegum átaksins og haldnar hafa verið kynningar með þátttöku jarðfræðinga í öllum áðurnefndum löndum.
Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fækkaði ferðamönnum til Íslands um 2% í júní miðað við júnímánuð í fyrra sem var metmánuður. Um 5 % fækkun hefur orðið á ferðamönnum frá sl. áramótum miðað við sama tíma í fyrra. Framundan eru mestu ferðamánuðir ársins, júlí og ágúst, og er útlitið bjart hvað þá mánuði varðar og bókanir flugfélaganna á ferðum til Íslands lofa góðu fyrir haustið. Ferðaþjónustyfirtæki innan Samtaka ferðaþjónustnnar, sem eru aðilar að átakinu, eru sammála um að batinn hafi orðið hraðari en vænta mátti og þakka það átakinu og eigin kynningu á erlendum vettvangi.
Einn af hápunktum Inspired by Iceland markaðsátaksins átti sér stað í síðustu viku þegar tónleikarnir ''Iceland Inspires'' fóru fram í Hljómskálagarðinum. Tónleikarnir voru einnig sýndir á netinu og voru heimsóknir á vefinn yfir 76.000 á meðan á þeim stóð frá 52 löndum. Miðað við að margir séu um hvern skjá má gera ráð fyrir að tónleikarnir hafi náð til margfalt fleiri en nánari könnun á því stendur yfir.
Heimsóknum á vefinn hefur fjölgað í kjölfar tónleikanna og eru þær enn um 10 þúsund á dag. Lagið Sofðu ungu ástin mín sem Damien Rice, Glen Hansard, Lay Low og Lára sungu saman hefur fengið mikla athygli og flestar heimsóknir eftir tónleikana og skipta þær þúsundum. Ljóst er að Ísland eignast fleiri og fleiri Íslandsvini en Facebook vinum verkefnisins fjölgaði um 3000 manns í tengslum við tónleikanna og eru þeir nó orðnir um 35 000. Íslandsvinurinn Frank Hvam hefur einnig vakið athygli en yfir 15 þúsund manns hafa skoðað hann á vefsíðunni síðan í síðustu viku. Búast má við fleiri þekktum Íslandsvinum þar á næstu vikum sem munu einnig vekja athygli. Á vefsíðunni inspiredbyiceland.com eru nærri 400 frásagnir erlendra ferðamanna af upplifun þeirra á Íslandi auk þess sem vefmyndavélar sýna stöðugt frá nokkrum ferðamannastöðum. Vegna mikilla undirtekta og virkni á vefsíðunni er nú verið að kanna möguleika á að framlengja líftíma hennar út árið.
Niðurstöður könnunar frá Capacent Gallup sem verkefnið lét framkvæma dagana 10.-18. júní, benda til að þriðjungur landsmanna hafi tekið þátt í þjóðarátakinu. Í því vísaði ríflega fimmtungur (22,1%) til átaksins á Facebook, 12,2% í tölvpóstum til fólks búsett í útlöndum, 10,3% sendi myndband eða e-kort í gegnum vefsíðu átaksins, 4% vísaði til átaksins í símtölum við fólk í útlöndum og 1,3% til átaksins á öðrum samfélagssíðum en Facebook eða með öðrum hætti.
Svarendur töldu að vísun til átaksins hefði náð til 82 einstaklinga að jafnaði og að því gefnu má gera ráð fyrir að sex og hálf milljón manna hafi fengið vitneskju einungis í gegnum þjóðarátakið. Dreifingin á þeim vísunum var einnig góð en 67,4% þeirra aðila sem haft var samband við voru búsettir á Norðurlöndunum, 49,9% í Norður-Ameríku, 37,5% á Bretlandseyjum, 31,2% í Mið-Evrópu, í Þýskalandi, Hollandi, Belgíu, Sviss og Austurríki, 23,5% á Frakklandi, Spáni, Portúgal og Ítalíu, 15,7% Mið/Suður-Ameríku, 15,2% Eyjaálfu, 12,2% til Asíu og 8,1% til Afríku.
Áætlað er að markaðsátakinu ljúki formlega í lok ágúst.