Mat á stöðu umhverfis- og gæðamála ferðaþjónustunnar
Ferðamálastofa og Nýsköpunarmiðstöð Íslands vinna að því að meta stöðuna í umhverfis- og gæðamálum ferðaþjónustunnar á Íslandi. Í því sambandi er nú leitað til ferðaþjónustufyrirtækja til að fá svör við nokkrum spurningum.
Áætlað er að vinnunni ljúki fyrir apríl nk. Að verki loknu þurfa að liggja fyrir upplýsingar um stöðu og færar leiðir hvað varðar umhverfis- og gæðaáherslur í íslenskri ferðaþjónustu. Markmið verkefnisins eru eftirfarandi:
- að greina stöðu umhverfis- og gæðastarfs íslenskrar ferðaþjónustu
- að greina helstu leiðir sem færar eru í umhverfis- og gæðastarfi fyrir íslenska ferðaþjónustu.
- að meta hver þessara leiða mætir best þörfum íslenskrar ferðaþjónustu með hliðsjón af beinum og óbeinum kostnaði.
Leitað til fyrirtækja í ferðaþjónustu
Er það von Ferðamálastofu og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands að verkefnið verði góður grunnur að betra umhverfis- og gæðastarfi fyrir þá fjölmörgu áhugasömu aðila sem starfa innan ferðaþjónustunnar. Mikilvægt er að fá sem bestar upplýsingar og nýta þekkingu þeirra sem reynsluna hafa, því leitum við til ykkar með nokkrar spurningar og vonumst til að þið getið svarað í örstuttu máli:
- Útskýrið í hverju starfsemi þíns fyrirtækis er fólgin
- Notar fyrirtækið skipulegar aðferðir til að meta eigin árangur í umhverfis- og gæðamálum, og þá hverjar? Ef ekki, er áhugi á slíku?
- Eru gæði þjónustunnar og umhverfisstarf metin af utanaðkomandi aðilum, þá hverjum og eftir hvaða fyrirkomulagi?
- Hvert er umfang slíks mats?
- Hvernig telur þú fyrirtækið standa að þessu leyti miðað við hliðstæð fyrirtæki hérlendis og erlendis?
- Í hvaða átt er æskilegast að umhverfis- og gæðastarf ferðaþjónustunnar á Íslandi þróist?
Verkefnið er unnið í samstarfi við ráðgjafarfyrirtækið Alta ehf sem safnar upplýsingum og tekur saman stöðuna. Við biðjum því um að svör séu send beint til þeirra á netfangið hulda@alta.is