Mesta kortavelta í einum mánuði
Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna hér á landi í júlí var 18,3 milljarðar kr. Eftir því sem næst verður komist hefur erlend kortavelta aldrei verið meiri í einum mánuði. Þetta kemur fram í tölum frá Rannsóknasetri verslunarinnar. Í sama mánuði í fyrra var erlend kortavelta næstum 15,4 milljarðar kr. og jókst því um 19% á milli ára.
Reiðufé og greiðslur erlendis ekki meðtaldar
Mest aukning var í ýmsum skipulögðum ferðum eins og hvalaskoðun, ferðum með leiðsögn og öðrum tegundum pakkaferða. Í þeim flokki var 52% aukning og greiddu ferðamenn með kortum sínum 2,6 milljarða í júlí. Þá eru ekki meðtaldar greiðslur með reiðufé eða það sem greitt var gegnum milliliði áður en til Íslands var komið.
Aukin velta hjá Íslendingum erlendis
Svo virðist sem Íslendingar sæki meira í ferðalög til útlanda því kortavelta Íslendinga vegna gistingar innanlands dróst saman um 6% í júlí frá sama mánuði í fyrra á meðan greiðslur vegna flugferða jókst um 6%. Þá sýna tölur Seðlabanka að kortavelta Íslendingar erlendis hafi verið 5,7 milljarðar kr. og aukist um 15,8% frá sama mánuði í fyrra.
Nánar á vef Rannsóknaseturs verslunarinnar.