Metfjöldi ferðamanna í einum mánuði
Talningar Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli sýna að ferðamönnum til landsins heldur áfram að fjölga og hafa þeir aldrei verið fleiri í einum mánuði en í júlí síðastliðnum. Þá fóru tæplega 67 þúsund erlendir ferðamenn um Leifsstöð og fjölgar um tæplega 1.700 manns á milli ára eða 2,6%.
Sé litið á helstu markaðssvæði í júlí þá stendur fjöldi Bandaríkjamanna og Breta nánast í stað á milli ára en fjölgun er frá Norðurlöndunum og Þýskalandi. Norðurlandabúar eru fjölmennastir, um 15.500 talsins, tæplega 9.000 frá Þýskalandi, 8.700 frá Bandaríkjunum og 8.000 frá Bretlandi. Alls eru gestir frá 15 löndum taldir sérstaklega en aðrir eru teknir saman sem ein heild og sem fyrr er talsverð fjölgun í þeirra hópi í júlí. Eins og fram hefur komið verður um næstu áramót farið að telja sérstaklega gesti frá fleiri löndum en nú er gert, m.a. frá Kína.
6,3% fjölgun frá áramótum
Frá áramótum og til júlíloka eru erlendir ferðamenn sem fóru um Leifsstöð 216 þúsund talsins og hefur fjölgað um 6,3% miðað við sama tíma í fyrra. Í töflunni hér að neðan má sjá hvernig þessir gestir skiptast á milli landa en endir liðnum ?Talanaefni/Fjöldi ferðamanna? hér á vefnum má nálgast heildarniðurstöður talninganna í einu Excel-skjali.
Undanfarin ár hafa ferðamenn í ágúst verið fleiri en í júlí og því ekki ósennilegt að þá verði nýtt met sett í fjölda gesta í einum mánuði. Jafnframt er vert að benda á að inn í þessum tölum eru ekki farþegar sem fara um aðra millilandaflugvelli hérlendis og þá eru ótaldir þeir ferðamenn sem koma með Norrænu og farþegar skemmtiferðaskipa sem hafa hér viðdvöl.
Að sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu eru júlítölur um fjölda ferðamanna í takti við væntingar. ?Samkvæmt stefnumörkun í greininni ber að leggja áherslu á hlutfallslega meiri vöxt utan sumartímans og það hefur verið að ganga eftir síðustu misserin," segir Ársæll.
Frá áramótum til loka júlí | ||||
2005 | 2006 | Mism. | % | |
Bandaríkin | 32.265 | 33.756 | 1.491 | 4,6% |
Bretland | 35.102 | 36.479 | 1.377 | 3,9% |
Danmörk | 20.849 | 21.441 | 592 | 2,8% |
Finnland | 4.653 | 4.830 | 177 | 3,8% |
Frakkland | 11.864 | 12.069 | 205 | 1,7% |
Holland | 6.126 | 6.250 | 124 | 2,0% |
Ítalía | 3.857 | 3.923 | 66 | 1,7% |
Japan | 2.985 | 3.255 | 270 | 9,0% |
Kanada | 1.762 | 2.079 | 317 | 18,0% |
Noregur | 14.127 | 15.308 | 1.181 | 8,4% |
Spánn | 2.801 | 3.187 | 386 | 13,8% |
Sviss | 3.974 | 3.374 | -600 | -15,1% |
Svíþjóð | 15.072 | 14.859 | -213 | -1,4% |
Þýskaland | 20.043 | 20.473 | 430 | 2,1% |
Önnur þjóðerni | 27.807 | 34.721 | 6.914 | 24,9% |
Samtals: | 203.287 | 216.004 | 12.717 | 6,3% |