Mikið að gerast í Manchester
Icelandair mun sem kunnugt er hefja áætlunarflug til Manchester í Englandi þann 7. apríl næstkomandi og verður flogið á föstudögum og mánudögum. Í tengslum við að fyrirhugað flug var síðastliðið fimmtudagskvöld haldin heilmikil ferðakynning og móttaka á Lowry hótelinu í Manchester.
Um 300 manns voru mættir á kynninguna, mestmegnis ferðaskrifstofufólk, en borgarstjórinn í Manchester ásamt borgarstjóranum í Salford heiðruðu samkomuna einnig með nærveru sinni.
Þeir sem stóðu að þessari kynningu ásamt Icelandair voru Ferðamálastofa, Höfuðborgarstofa, Bláa Lónið og systurfyrirtæki Icelandair. Kynningin tókst með miklum ágætum og var stjórnað af Felix Bergssyni.
Ísbarinn vakti athygli
Svæðisstjóri Icelandair, Stephen Brown, tók á móti gestum á rauða dreglinum og þegar inn var komið var Bláalóns kokteill boðinn hverjum og einum en um það sáu flugfreyjur og flugþjónn í fullum skrúða. Gunnar Már Sigurfinnsson, sölu- og markaðsstjóri, ávarpaði síðan gesti og bauð þá velkomna. Einnig hélt sendiherra Íslands í Bretlandi stutta tölu þar sem hann gerði hina íslensku útrás að umtalsefni. Heilmikið var lagt í að gera kvöldið sem ánægjulegast. Salurinn var glæsilega skreyttur og í honum miðjum stóð meðal annars bar sem höggvin var úr ís. Vakti hann mikla athygli og þá ekki síður borðin sem samstarfsaðilarnir höfðu til umráða. Á hverju borði var komið fyrir lógói viðkomandi fyrirtækis, sem einnig var höggvið í ís. Kátínu vakti einnig að teknar myndir af viðstöddum og þær settar í forsíðuramma af OK magasín með fyrirsögninni ?VIP''s at Icelandair Launch party!? Má af þessu sjá að léttleikinn var í fyrirrúmi og óhætt að segja að ferðaskrifstofufólkið sem þarna var saman komið hafi sýnt landi og þjóð mikinn áhuga.
17 milljón manna markaðssvæði
Daginn eftir var svo opnuð 3ja daga ferðasýning, The Manchester Holiday Show, en hún er opin eingöngu fyrir almenning. Heilmikil umferð var á Íslandsbásinn og mikið spurt um landið. Rúmlega 17 milljónir manns búa á svæðinu þannig að eftir heilmiklu er að slægjast með opnun þessa nýja áfangastaðar. Ýmislegt var gert til að vekja áhuga gesta á Íslandi. Reyka Vodka lögðu til 1000 flöskur af íslensku vatni merkt sérstaklega og þá var einnig stór flaska hoggin í ís sett upp í miðjum básnum og gerði sitt til að draga fólk. Ekki liggja fyrir tölur á þessu stigi hve margir gestur komu þessa þrjá daga en á heimasíðu sýningarinnar segir að meðaltal síðustu sýninga sé 65.000 manns.
http://www.johnfishexhibitions.co.uk/Manchester.html
Svæðisstjóri Icelandair, Stephen Brown, og Gunnar Már Sigurfinnsson, sölu- og
markaðsstjóri, bregða á leik við ísbarinn.
Íslenski básinn á The Manchester Holiday Show ferðasýningunni.
Ísland var kynnt sem nýr áfangastaður á sýningunni.