Fara í efni

Mikið líf á ITB

itb09_litil
itb09_litil

Síðastliðinn sunnudag lauk ITB ferðakaupstefnunni í Berlin, þeirri stærstu á alþjóðlegum vettvangi. Í ár kynntu um 11 þúsund sýnendur frá 187 löndum starfsemi sína fyrir um 180 þúsund gestum, þar af 110 þúsund faggestum.

Að sögn sýningarhaldara (Messe Berlin) voru gerðir viðskiptasamningar fyrir um sex milljarða Evra á meðan sýningunni stóð, sem þykir gott í skugga almenns efnahagsástands í heiminum.

Ísland var þáttakandi í 41. sinn. Að þessu sinni sóttu 20 íslensk fyrirtæki kaupstefnuna til að kynna starfsemi sína á kynningarbás Ferðamálastofu, en auk þessu kynntu  Icelandair og systurfyrirtæki þess starfsemi sína. Íslensku sýnendurnir voru almennt ánægðir með undirtektir og greinilegt að komandi sumar getur orðið býsna líflegt.

Þreifingar um aukið framboð yfir vetrartímann
Þá eru og uppi þreifingar bæði íslenskra og erlendra flugfélaga um að auka framboð á flugi yfir vetrartímann frá meginlandinu. Þar myndu hugsanlega einnig koma inn borgir sem ekki hefur verið flogið frá áður á þessum tíma. 

Davíð Jóhannsson, svæðisstjóri Ferðamálastofu í Mið-Evrópu, sem skipulagði þátttöku Íslands á ITB, segir enga spurningu að svona viðbót yfir vetrartímann yrði kærkomin.?En hún er líka alhliða áskorun fyrir alla sem koma að markaðssetningu landsins og þá sem ákveða umfang hennar. Tækifæri í landkynningu eru margvísleg og alltaf er eitthvað um að ný slík líti dagsins ljós á sýningu sem þessari. Þau eru mörg hver að mínu mati ekki síst viðurkenning á því hvernig tekist hefur að verja ímynd Íslands sem áfangastað ferðamanna, þrátt fyrir allt sem á hefur gengið? segir Davíð.