MK-nemar sem fyrr sterkir í Evrópukeppninni
Nemendur úr Ferðamálasskólanum og Hótel- og matvælaskólanum í MK sýndu frábæran árangur í árlegri nemakeppni AEHT (Evrópusamtaka hótel- og ferðamálaskóla) sem haldin var í Lissabonn dagana 5.-10. október síðastliðinn og komu heim með silfurverðlaun í eftirréttagerð. Nemakeppnin er liðakeppni þar sem dregnir eru saman þátttakendur frá ólíkum löndum sem síðan spreyta sig á verkefnum tengdum áherslusviðum þeirra í námi. Að þessu sinni var keppt í eftirréttagerð, gestamóttöku, framreiðslu, barþjónustu, ferðakynningum, matreiðslu og stjórnun.
Andri Kristjánsson, bakaranemi, keppti í eftirréttagerð ásamt stúlku frá Lettlandi. Verkefni þeirra var að útbúa fjórar tegundir af eftirréttum. Andri byrjaði á að taka einstaklingspróf í faginu og að því loknu fengu þau þrjá og hálan tíma til að útbúa fjóra eftirrétti og bera fyrir dómnefnd. Þau fengu silfurverðlaun fyrir sitt framlag, en dæmt er m.a. eftir bragði og útliti, fagmennsku í vinnubrögðum og samvinnu keppenda.
Katrín Ósk Sigurgeirsdóttir, nemi í Ferðamálaskóla MK, tók þátt í keppni í ferðakynningum ásamt stúlkum frá Hollandi og Eistlandi. Verkefnið var þrískipt. Nemendur byrjuðu á að taka eintaklingspróf og fengu þeir eftir það 5 klukkutíma til að rannsaka tækifæri og möguleika menningartengdrar ferðamennsku á ferðamannastað sem er á heimsminjaskrá Unesco. Nemendur áttu að lokum að kynna verkefnið frammi fyrir áhorfendum og dómnefnd. Dæmt er eftir fagmennsku í vinnubrögðum, enskukunáttu, framsetningu og samvinnu keppenda.
Evrópusamtök hótel og ferðamálaskóla voru stofnuð árið 1988 og voru aðilar þá samtals 24 skólar í 16 Evrópulöndum. Samtökin hafa vaxið jafnt og þétt og nú eru á fjórða hundrað skólar frá rúmlega 40 löndum í samtökunum. Stór ráðstefna og nemakeppni er haldin í október ár hvert og skiptast aðildarlöndin á um að vera gestgjafar. Ráðstefnugestir voru rúmlega 700, frá 150 skólum í yfir 30 þátttökulöndum.