Morgunflug til Bandaríkjanna hefst í dag
Fyrsta morgunflug Icelandair til Bandaríkjanna verður í dag klukkan 10:30. Áfangastaðurinn í þessari fyrstu ferð er New York og er uppselt í fyrsta flugið að sögn félagsins.
Hér er um viss tímamót í samgöngum og ferðaþjónustu að ræða en til þessa hefur jafnan verið flogið til Bandaríkjanna síðdegis. Þessu tengist einnig að í sumar verður boðið upp á morgunflug frá Evrópu til Keflavíkur að morgni og þaðan er haldið strax áfram til Bandaríkjanna að morgni. Þá eru vélar félagsins að koma til Íslands frá Bandaríkjunum um miðnætti og halda áfram að næturlagi til Evrópu. Í sumar verður boðið upp á þessi morgunflug frá Kaupmannahöfn, Osló og Stokkhólmi til Íslands og frá Íslandi til New York og Boston. Samkvæmt áætlun félagins verður boðið upp á um 160 ferðir á viku hverri frá Íslandi, sem er það langmesta í sögu félagins.