Mótmæla boðuðum gjaldtökuhugmyndum landeigenda
Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent frá sér tilkynningu þar sem samtökin mótmæla boðuðum gjaldtökuhugmyndum landeigenda. Telja þau vegið að framtíð greinarinnar.
"Undanfarnar vikur hafa nokkrir landeigendur stigið fram og kynnt áætlanir sínar um að hefja gjaldtöku við nokkrar af náttúruperlum landsins. Slík vinnubrögð eru með öllu óásættanleg og fordæmir stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) þá leið sem þarna er farin.
Samtök ferðaþjónstunnar SAF hafa ávallt lagt áherslu á að við útfærslu á gjaldtöku sé horft til heildarhagsmuna ferðaþjónustunnar, hvort heldur verið er að meta möguleika til gjaldtöku eða við útfærslu á uppbyggingu ferðamannastaða. Þá verður líka að tryggja að þær tekjur sem af gjaldtökunni verða skili sér örugglega að fullu til áframhaldandi uppbyggingar ferðamannastaða víðs vegar um landið.
Nú liggur fyrir að iðnaðar- og viðskiptaráðherra muni um mánaðarmótin kynna útfærslur að heildstæðri lausn hvað varðar fjármögnun til uppbyggingar ferðamannastaða. Telja samtökin mikilvægt að horft sé til slíkra heildarlausna frekar en farið verði af stað með staðbundnar lausnir. Þannig eru heildarhagsmunir einnar stærstu og mest vaxandi atvinnugreinar landsins best tryggðir.
Þá vilja SAF ítreka enn og aftur mikilvægi þess að allar kröfur um gjaldtöku þurfa að liggja fyrir með góðum fyrirvara þar sem sala til erlendra ferðaheildsala á sér stað langt fram í tímann. Tímabundinn vanda væri t.a.m. hægt að leysa með valkvæðum greiðslum ferðamanna. Ferðaþjónustunni er mikið mun að standa við gerða samninga.
Eitt stærsta ferðamannasumar sögunnar er handan hornsins og því skiptir öllu máli að aðilar innan greinarinnar sæki á miðin í sátt og samlyndi."
Íslensk ferðaþjónusta verður að standa saman að útfærslu á fyrirkomulagi við gjaldtöku, enda er ímynd ferðamannalandsins Íslands að veði.