Niðurstaða úr hönnunarsamkeppni þjóðskóga
Nú liggja fyrir niðurstöður úr samkeppni sem Skógrækt ríkisins efndi til um hönnun á áningarstöðum í þjóðskógum. Verkefnið var meðal þeirra sem hlutu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á þessu ári.
Þjóðskógar aðgengilegir almenningi
Skógrækt ríkisins hefur á undanförnum árum og áratugum unnið að því að gera skóglendi í svokölluðum þjóðskógum Skógræktar ríkisins aðgengileg fyrir almenning. Hluti af því verkefni er að gera stíga um skóga og áningarstaði þar sem fólk getur áð. Árið 2012 var ákveðið að efna til hönnunarsamkeppni um hönnun áningarstaða í fimm skógum víðs vegar um land. Forsendur fyrir hönnuninni eru að á áningarstöðunum yrðu bálskýli og salernisaðstaða og er æskilegt að mannvirkin verði gerð úr viði úr íslenskum skógum að mestu leyti. Á svæðunum yrði gert ráð fyrir leiksvæðum fyrir börn og aðstöðu fyrir skóla.
Verði fyrirmynd annarra áningastaða
Í samkeppninni átti að hanna áningastað fyrir þjóðskóg á Laugarvatni. Fram kom að æskilegt væri að vinningstillagan gæti orðið fyrirmynd áningarstaða sem ætlunin er að reisa víðsvegar um landið á næstu árum. Á áningastaðnum skal vera bálskýli, þjónustuhús, leiksvæði barna og aðstaða til útikennslu fyrir skóla. Gera þurfti ráð fyrir að áningarstaðirnir yrðu aðgengilegir öllum, þ.m.t. fólki í hjólastólum.
Vinningstillagan
Margar vandaðar tillögur og vel fram settar bárust í keppnina. Dómnefnd tók fjórar tillögur til frekari skoðunar en að lokum var
það einróma niðurstaða dómnefndar að fyrstu verðlaun skyldi hljóta tillaga Arkís arkitekta ehf. en að henna stóðu Birgir Teitsson
arkitekt FAÍ, FSSA, Arnar Þór Jónsson arkitekt FAÍ, FSSA. Aðstoð við tillögugerð: Sara Axelsdóttir arkitekt.Tvær aðrar
tillögur voru einnig verðlaunaðar.
Um verðlaunatillöguna segir meðal annars í niðurstöðu dómnefndar: “Heildaryfirbragð tillögu er mjög gott og skýrt fram sett.
Skírskotun til fyrri tíma byggingarhefðar er skemmtileg og vel útfærð. Eldaskáli, salernisaðstaða, útikennsluaðstaða og
leiksvæði mynda samfellda heild. Tillagan vekur strax áhuga fyrir m.a. einfaldleika og sveigjanleika.”
Nánar á vef Arkitektafélags Íslands