Niðurstöður landamærarannsóknar 2021 - skýrsla
Skýrsla með niðurstöðum úr könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna árið 2021 hefur verið gefin út. Um er að ræða heildarsamantekt á svörum ferðamanna sem heimsóttu Ísland á tímabilinu júní til desember 2021. Könnunin hefur verið í gangi frá því í júlí 2017 eftir aðstæðum á hverjum tíma en vegna kórónaveirufaraldursins lá könnunin niðri stóran hluta ársins 2020 og fyrstu fimm mánuði ársins 2021. Sambærilegar skýrslur hafa komið út tvisvar og byggja á svörum ferðamanna sem heimsóttu landið 2018 og 2019.
Í skýrslunni eru niðurstöður settar fram með myndrænum hætti og í töflum þar sem finna má svör eftir helstu þjóðernum og markaðssvæðum, auk þess sem tenging er inn á töflur þar sem má sjá nánari úrvinnslu eftir öðrum bakgrunnbreytum.
Markmiðið með könnuninni er að afla tölfræðilegra upplýsinga til að geta gefið skýra mynd af atferli og viðhorfum ferðamanna. Könnunin er tvískipt, annars vegar flugvallakönnun sem er framkvæmd á brottfararsvæði á Keflavíkurflugvelli og og hins vegar netkönnun sem er send eftir á til svarenda sem samþykkja frekari þátttöku. Alls tók 11.551 þátt í flugvallahluta könnunarinnar árið 2021 og 1.171 í nethlutanum.
Gagnasöfnun og úrvinnsla könnunarinnar var í höndum Epininon P/S og Maskínu og samantekt skýrslu í höndum Ferðamálastofu.