Ný lög um skipan ferðamála taka gildi
Í maí síðastliðnum voru samþykkt ný lög um skipan ferðamála ( lög 73/2005). Lögin taka gildi nú 1. janúar 2006. Helstu breytingar frá núgildandi lögum hvað varðar starfsemi skrifstofu Ferðamálaráðs eru þessar.
Sérstak ráð, Ferðamálaráð, hefur frá 1964 verið stjórn skrifstofu Ferðamálaráðs og samkvæmt lögum borið faglega og fjárhagslega ábyrgð á störfum hennar. Ferðamálaráð fær með gildistöku laganna nýtt og breytt hlutverk og verður ekki lengur stjórn umræddrar stofnunar og ber ferðamálastjóri því nú alla faglega og fjárhagslega ábyrgð á störfum stofnunarinnar gagnvart ráðherra.
Ferðamálastofa tekur við hlutverki Ferðamálaráðs sem stofnunar
Stofnunin, sem hefur verið kölluð Ferðamálaráð Íslands eins og ráðið sjálft, þó í reynd væri hún eðlilega skrifstofa Ferðamálaráðs, fær nú nafn og mun heita Ferðamálastofa.
Ferðamálastofa tekur samkvæmt lögunum við öllum skuldbindingum og verkefnum skrifstofu Ferðamálaráðs. Þannig að engin núverandi verkefni falla niður eða eru færð annað. Ferðamálastofa mun því áfram sinna þeim verkefnum sem skrifstofur Ferðamálaráðs hafa sinnt gagnvart stjórnvöldum, greininni og innlendum og erlendum ferðamönnum. En veigamiklir nýir málaflokkar bætast við þau verkefni sem fyrir eru.
Leyfismál færast til Ferðamálastofu
Í fyrsta lagi færast nú til Ferðamálastofu 1. janúar 2006 leyfismál vegna ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og fleiri svo og öll stjórnsýsla því tengd. Þeir sem hafa gild leyfi til reksturs ferðaskrifstofu nú skulu fyrir 30. júní 2006 sækja um ný leyfi, en þá falla úr gildi öll núgildandi leyfi til rekskturs ferðaskrifstofa.
Eftirlit með umræddri starfsemi verður nú á hendi Ferðamálastofu. Gera má ráð fyrir að þetta kalli á umsóknir og því útgáfu leyfa til um 200 aðila í ferðaþjónustu á árinu 2006 og eftirlit með þeirra starfsemi, þ.m.t. árleg yfirferð ársreikninga ferðaskrifstofa samkvæmt umræddum lögum.
Þá er Ferðamálastofu falið að ákvarða, innheimta og vista tryggingarfé ferðaskrifstofa. Stofnuninni er einnig falið að taka ákvarðanir um aðgerðir hvað varðar sviptingar leyfa og um notkun tryggingarfjár komi til gjaldþrots rekstraraðila.
Þá mun Ferðamálastofa samkvæmt nýju lögunum sinna skráningu bókunarmiðstöðva og upplýsingamiðstöðva, sem verða nú skráningaskyldar í fyrsta sinn.
Framkvæmd markaðrar ferðamálastefnu
Í öðru lagi er Ferðamálastofu falið með nýju lögunum það nýja verkefni að sjá um framkvæmd markaðrar ferðamálastefnu. Þingsályktun um framkvæmd þessarar áætlunar var samþykkt á síðasta þingi í kjölfar mikillar vinnu við gerð hennar, sem var stjórnað af þriggja manna stýrihóp skipuðum af samgönguráðherra og var ferðamálastjóri formaður þess hóps.
Í umræddri áætlun eru fjölmörg verkefni sem nú með nýjum lögum Ferðamálastofu er falið að hafa umsjón með framkvæmd á.
Sömu verkefnum sinnt áfram
Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir að undanfarna mánuði hafi verið unnið að þessari breytingu innan stofnunarinnar. ?Það eru ótal atriði sem hefur þurft að skoða og hefur eðlilega undirbúningur vegna þessara nýju stjórnsýsluverkefna tekið mestan tímann, þar sem það eru ný verkefni, en að öðru leyti er um að ræða mikið sömu verkefni í nýrri stofnun þó áherslur breytist í mörgum málaflokkum,? segir Magnús.
Samkvæmt nýju lögunum þá yfirtekur Ferðamálastofa allar skuldbindingar skrifstofu Ferðamálaráðs. Allar eignir skrifstofu Ferðamálaráðs renna til Ferðamálastofu svo og gilda allir ráðningarsamningar sem skrifstofa Ferðamálaráðs hefur gert við starfsfólk áfram gagnvart Ferðamálastofu. ?Það verður því ekki um að ræða breytingar hvað varðar starfsfólk á öllum okkar sex skrifstofum að öðru leyti en því að ráðinn er lögfræðingur til stofnunarinnar í samræmi við aukið og breytt stjórnsýsluhlutverk. Þannig að gagnvart samstarfsaðilum okkar hjá stjórnvöldum, innlendum og erlendum ferðaþjónustuaðilum svo og ferðafólkinu, þá eru það sömu aðilar nú í nýrri stofnun. Ferðamálastofu sem munu áfram leggja sig fram innan lands og utan að vinna að frekari framgangi ferðaþjónustunnar og nú í samræmi við markaða ferðamálastefnu þar sem íslensk náttúra, menning og aukin gæði leiði til frekari arðsemi fyrirtækja og þjóðarbús,? segir Magnús.
Ný lög um skipan ferðamála