Ný stefnumótun fyrir íslenska ferðaþjónustu
Nú er hafinn undirbúningur að nýrri stefnumótun fyrir íslenska ferðaþjónustu 2005- 2015. Frá árinu 1996 hefur ferðaþjónustan unnið eftir stefnumótun sem nær til ársins 2005.
Samgönguráðherra hefur á undanförnum misserum látið vinna mikla undirbúningsvinnu sem lögð verður til grundvallar við gerð umræddrar stefnumótunar. Þar má m.a. nefna skýrslur um menningartengda ferðaþjónustu, heilsutengda ferðaþjónustu, Auðlindin Ísland og nú síðast skýrsla framtíðarnefndar ferðaþjónustunnar. Samgönguráðherra hefur nú ritað ferðamálastjóra bréf þar sem hann felur honum "að hefja undirbúning að gerð nýrrar stefnumótunar fyrir íslenska ferðaþjónustu er nái fram til ársins 2015," eins og segir orðrétt.
Mikið og krefjandi verkefni
Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, segir að þetta sé mikið og krefjandi verkefni og gaman að takast á við það nú öðru sinni. "Fyrsta heildarstefnumótun fyrir íslenska ferðaþjónustu af hálfu stjórnvalda var unnin á árunum 1995-1996 og nær hún fram til ársins 2005. Ég var formaður stýrihópsins sem stjórnaði þeirri vinnu og við unnum þetta með fjölmörgum undirhópum sem sáu um afmarkaða þætti. Alls komu þá um 200 manns að þeirri vinnu með formlegum hætti. Síðan hefur Ferðamálaráð unnið að framkvæmd þeirrar stefnumótunar sem hefur verið mjög ánægjulegt verkefni í samstarfi við greinina. Nú mun ég nota sumarmánuðina til að undirbúa gerð næstu stefnumótunar í samræmi við það sem segir í bréfi samgönguráðherra; stefnumótun sem ætlað er að verða vegvísir fyrir greinina næstu 10 árin," segir Magnús.