Nýr formaður Iceland Naturally í N.-Ameríku
Samgönguráðherra hefur skipað Skúla Helgason, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, formann Iceland Naturally í Norður-Ameríku. Hann tekur við af Ingimundi Sigurpálssyni, forstjóra Íslandspósts.
Ákveðið hefur verið að samgönguráðherra, forsætisráðherra og utanríkisráðherra fækki fulltrúum sínum í stjórninni úr tveimur í einn hver og verða Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, og Guðmundur Steingrímsson, tónlistarmaður og pistlahöfundur, fulltrúar forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis, samkvæmt vef stjórnarráðsins.
Fyrirtækin sem aðild eiga að samkomulaginu eru Icelandair, Icelandic USA, Glitnir, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Egill Skallagrímsson, 66° Norður, Bláa lónið og Reyka Vodka auk Bændasamtaka Íslands. Fleiri fyrirtæki eru að kanna aðild, samkvæmt vef stjórnarráðsins.
52 milljónir úr ríkissjóði á ári
Ríkissjóður leggur árlega fram 700.000 bandaríkjadali eða 52 milljónir króna í ár af fjárlagalið samgönguráðuneytis. Verkefninu er stýrt frá skrifstofu Ferðamálastofu í New York í samstarfi við viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins í sömu borg.