Nýr vefur Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu
Á Vestnorden ferðakaupstefnunni í morgun opnaði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra nýjan vef Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu. Samtökin eru samvinnu- og samráðsvettvangur þeirra er stunda sögutengda ferðaþjónustu hérlendis.
Auk þess er markmiðið að auka samvinnu í kynningarmálum, gæðamálum og stuðla að aukinni fagmennsku. Samtökin leggja í fyrstu áherslu á arfleifð íslenskra miðaldabókmennta, fyrstu aldir Íslandsbyggðar og miðaldamenningu, þ.e. tímabilið frá landnámi og fram um 1300. Stofnaðilar eru yfir 30 frá öllum landshlutum. Samtökin eru mynduð í kjölfar þátttöku sjö þeirra í Evrópuverkefninu Destination Viking - Sagalands (2003-2005).
Slóðin á hinn nýja vef er www.sagatrail.is . Á meðfylgjandi mynd má sjá þegar Sturla Böðvarsson opnar vefinn.