Fara í efni

Nýsköpun í ferðaþjónustu á Vestfjörðum

Skúta
Skúta

Síðastliðið þriðjudagskvöld kom til heimahafnar á Ísafirði 60 feta skúta sem í sumar mun sigla með ævintýraþyrsta ferðalanga um Vestfirði og austurströnd Grænlands. Boðið verður upp á allt frá þriggja daga ferðum til tveggja til þriggja vikna leiðangra til Grænlands. Skútan er sú stærsta á Íslandi en um verkefnið hefur verið stofnað fyrirtækið Borea Adventures.

Til að byrja með verður farið í nokkrar ferðir til reynslu. Hugmyndin er að bjóða m.a. upp á skíðaferðir á vorin, náttúruskoðun með megin áherslu á fugla og refi, ævintýraferðir þar sem blandað verður saman sjókajak siglingum í Jökulfjörðum og Hornströndum, snorkköfun í Reykjanesi, fjallaferðum, fjallahjólaferðum, jöklagöngu á Drangajökli og mörgu fleiru. Á haustin er gert ráð fyrir að færa skútuna á Breiðafjörðinn og bjóða upp á styttri siglingar allt að Látrabjargi.

Skútan er smíðuð í Bretlandi og var notuð í kappsiglingar í kringum jörðina og er því eðli málsins samkvæmt sterkbyggð. Hún mun taka 8-10 farþega þegar endurskipulagningu á rými skútunnar verður lokið næsta vor. Öll almenn þægindi verða til staðar eins og stórt eldhús, tvö salerni, heit sturta og öflug miðstöð í öllum káetum.  Meðfylgjandi mynd var tekin við komu skútunnar til Ísafjarðar.