Nýtt form gagnaskila liður í aukinni rafrænni stjórnsýslu
Ferðamálastofa hefur opnað fyrir árleg skil á gögnum vegna endurmats tryggingafjárhæða ferðaskrifstofa og er skilafrestur til 1. apríl næstkomandi. Gagnaskilin fara nú fram með breyttu fyrirkomulagi í gegnum nýja vefgátt Ferðamálastofu.
Tryggingar liður í neytendavernd
Árlega endurmat á tryggingarfjárhæðum er lykilatriði í þeirri neytendavernd sem leyfisfyrirkomulag ferðaskrifstofa felur í sér og er ætlað að tryggja hagsmuni viðskiptavina sem kaupa pakkaferðir af ferðaskrifstofum. Ferðaskrifstofurnar þurfa þannig árlega að skila rekstrarupplýsingum til Ferðamálastofu sem notaðar eru til að reikna tryggingafjárhæðina sem tiltæk er til að endurgreiða viðskiptavinum, fari ferðaskrifstofa í gjaldþrot eða leyfi er fellt niður.
Til hagsbóta fyrir ferðskrifstofur
Nýtt fyrirkomulag gagnaskilanna á að vera til mikilla hagsbóta fyrir ferðaskrifstofur og jafnframt auðvelda mjög alla úrvinnsla hjá Ferðamálstofu. Til þessa hafa ferðaskrifstofur þurft að fylla út excel-skjöl sem síðan eru vistuð og send inn en nú er öll útfylling inn í vefgáttinni sjálfri, upplýsingar vistast þar, eru aðilum alltaf aðgengilegar og tengjast beint í málakerfi Ferðamálastofu. Því er um stórt skref að ræða í rafrænni stjórnsýslu og nútímalegri vinnubrögðum.
Forsvarsmenn ferðaskrifstofa hafa þegar fengið sendar nánari upplýsingar um gagnaskilin og einnig má kynna sér málið nánar undir liðnum Árlegt endurmat tryggingafjarhæða hér á vefnum.