Nýtt myndband Ferðamálaráðs vinnur til verðlauna í Bandaríkjunum
Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York, í samvinnu við Iceland Naturally, hefur látið gera nýtt kynningarmyndband um Ísland. Myndbandið, sem nefnist "Iceland: The Way Life Should Be", hefur vakið verðskuldaða athygli og hlotið viðurkenningar í fagkeppnum vestanhafs.
Nýja myndbandið er hálf sjötta mínúta að lengd og er því dreift frítt til ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og annarra sem áhuga hafa á að kynna sér hvað Ísland hefur að bjóða. Meðal nýjunga er að það er gefið út í DVD-formi og er auk þess aðgengilegt á vefsíðum Ferðamálaráðs í Bandaríkjunum, og vef Iceland Naturally.
Verðlaun í fagkeppnum
Sem fyrr segir hefur nýja myndbandið hlotið verðskuldaða athygli. Það hlaut gullverðlaun flokki ferðakynningarmyndbanda í samkeppninni "Aurora Awards 2004" en það er óháð samkeppni á sviði auglýsinga, kynningarmyndbanda o.fl. Þá hlaut það einnig viðurkenningu þegar hin árlegu "Telly Awards" voru veitt í 25. sinn á dögunum.
DVD tæknin skapar nýja möguleika
Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs í New York, segist áætla að dreifingin muni nema tugum þúsunda eintaka næstu mánuði og Ferðamálaráð Íslands sé þannig eitt fyrsta ferðamálaráðið sem nýti DVD-tæknina fyrir kynningarverkefni af þessari stærðargráðu. "Ég tel að DVD-tæknin skapi okkur nýja möguleika á að kynna Ísland því þetta er tiltölulega ódýr leið til að koma töfrum landsins til skila með áhrifaríkum hætti. Þótt bæklingar og prentað kynningarefni standi alltaf fyrir sínu þá er mun áhrifaríkara að horfa á myndband en að skoða mynd í bæklingi af fossi eða goshver, svo dæmi sé tekið," segir Einar.