Fara í efni

Nýtt tæki til stefnumótunar og aðgerðagreiningar með tilliti til ferðaþjónustu

Nýtt tæki til stefnumótunar og aðgerðagreiningar með tilliti til ferðaþjónustu

Upptaka af málstofu Ferðamálastofu og Hagrannsókna sf. um þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustuna

Ferðamálastofa bauð fagaðilum til málstofu um þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustuna þriðjudaginn 12. mars 2024 í Odda, stofu 101. Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri, opnaði málstofuna en fundarstjóri var Dr. Birgir Þór Runólfsson, dósent við HÍ og forsvarsmaður Hagrannsókna sf.

Tæki til hagspáa, stefnumótunar og aðgerðagreiningar

Á málstofunni kynntu Dr. Marías H. Gestsson, lektor við HÍ, og Eðvarð I. Erlingsson, hagfræðingur og stundakennari við HÍ, uppbyggingu og helstu notkunarmöguleika þjóðhagslíkans fyrir ferðaþjónustuna við hagspárgerð, stefnumótun og aðgerðagreiningu hins opinbera og einkaaðila, ásamt því að svara spurningum og athugasemdum úr sal. Upptöku af fyrirlestrunum og umræðunni má nálgast hér að neðan.

Tvenns konar þjóðhagslíkön fyrir ferðaþjónustuna

Annars vegar er um að ræða sjálfstætt þjóðhagslíkan með ferðageira, sérhannað fyrir íslenska hagkerfið (sjá lokaskýrslu um líkanið  hér). Hins vegar er um að ræða útvíkkun á QMM spálíkani Seðlabanka Íslands/Hagstofu Íslands þannig að það taki tillit til hlutverks ferðaþjónustunnar. Þetta er gert með því að koma fyrir í líkaninu ferðaþjónustugeira, þannig að unnt sé að skoða áhrif ferðaþjónustunnar í hagkerfinu - og öfugt (sjá lokaskýrslu um líkanið hér).

Áhrif breytinga hjá ferðaþjónustunni á hagkerfið í heild – og öfugt

Líkönin má nota til að skoða áhrif skella í ferðaþjónustu á hagkerfið og almennt gagnvirk áhrif ferðageirans og hagkerfisins. Hagrannsóknir sf. hafa smíðað þessi líkön fyrir Ferðamálastofu. Málstofan bauð upp á tækifæri fyrir gesti að fræðast betur um gagnsemi verkefnisins og koma með athugasemdir um hvernig megi bæta líkönin og efla. Margvíslegar spurningar og athugasemdir bárust líkanagerðarmönnum úr sal, á meðan á fyrirlestrum þeirra stóð sem og að þeim loknum. Allt þetta má sjá á meðfylgjandi upptöku málstofunnar.

Upptaka frá málstofunni-Ath. að aðgangsorð (Passcode) fyrir upptökuna er: nz7AYW7& 


Nánari upplýsingar veitir Jóhann Viðar Ívarsson hjá Ferðamálastofu, johann@ferdamalastofa.is.