Öflug fjölmiðlaumfjöllun um Ísland í Þýskalandi
Eins og fram hefur komið var eitt hefti hins virta þýska ferðatímarits Merian, sem kom út fyrr í sumar, helgað Íslandi. Gríðarleg landkynning felst í svo vandaðri umfjöllun en þetta er þó langt í frá eina dæmið af þessu tagi, enda hefur skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í Frankfurt lagt verulega áherslu á þennan þátt í markaðsstarfinu.
?Fólk gerir sér eflaust ekki grein fyrir hversu stóran þátt Ferðamálaráð á oft í jákvæðri umfjöllun erlendra fjölmiðla um land og þjóð. Ef við tökum Merian sem dæmi þá kom Ferðamálaráð mikið að þeirri vinnu. Héðan fékk tímaritið t.d. tillögur að efni, hvað þeir ættu að skrifa um og sjá, auk þess sem Ferðamálaráð greiddi fyrir framtakinu með ýmsum hætti. Síðan er í blaðinu vísað á okkur hjá Ferðamálaráði fyrir frekari upplýsingar. Annað dæmi af sama toga er GEO Season, sem einnig er mjög þekkt ferðatímarit, en það var í febrúar með mikla Íslandsútgáfu,? segir Haukur Birgisson, forstöðumaður markaðsskrifstofu Ferðamálaráðs í Frankfurt.
Dæmin eru fjölmörg
Haukur segir hægt að nefna fjölmörg dæmi um áberandi umfjöllun um Ísland í þýskum fjölmiðlum. Nýlega var t.d. bein útending frá Íslandi á tónlistarviðburði sem nefnist Musikanstadl og er þekktur sjónvarpsþáttur. Þar spiluðu m.a. Stuðmenn o.fl. Studdi Ferðamálaráð verkefnið ásamt Island Pro Travel. ?Fyrr í sumar voru einnig blaðamenn á ferð fyrir norðan og vestan. M.a. voru Snæfellsnesi og jöklinum gerð skil í tengslum við að 100 ár voru liðin frá andláti Jules Vernes. Það birtust margar greinar í blöðum og einnig er HR 3 sjónvarpsstöðin að taka upp fyrir þátt sem heitir ?Service Reisen. Hollenskir og franskir blaðamenn voru einnig á ferðinni nú í byrjun sumars en við reynum að senda fjölmiðlafólk til landsins áður en háannatímabil byrjar," segir Haukur.
Farsælt samstarf
Haukur segist vilja nefna að Ferðamálaráð hafi í gegnum árin átt mjög gott samstarf við Icelandair í tenglsum við ferðir blaðamanna og félagið sjálft sé auðvitað líka með öflugt markaðsstarf . Þá má megi nefna ferð blaðamanna í samstarfi við Iceland Express í vor til kynningar á nýja fluginu til Hahn.
Skilar sér margfalt
Hann segir ljóst að landkynning sem þessi skili sér margfalt til baka. ?Eins og ég hef áður sagt má meta svona umfjöllun til nokkur hundruð milljóna króna í auglýsingum, mun meiri fjármuna en við getum nokkurn tíman sett í beinar auglýsingar? segir Haukur að lokum.