NATA - Opið fyrir styrkumsóknir
Opnað hefur verið fyrir styrkveitingar NATA - North Atlantic Tourism Association. Hlutverk NATA er að móta sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd og styrkja ýmis verkefni sem efla ferðaþjónustu innan svæðisins.
Styrkir til tvenns konar verkefna
Í samræmi við það sem samningur landanna kveður á um er hægt að sækja um styrki til tvenns konar verkefna:
- Þróunar- og markaðsverkefna í ferðaþjónustu
- Kynnis- og námsferða
Stjórn NATA mun árið 2022 líta sérstaklega til umsókna þar sem áhersla er á endurræsingu ferðaþjónustunnar eftir Covid-19, sjálfbærni og stafræna væðingu í ferðaþjónustu.
Styrkir til verkefna í ferðaþjónustu
Allir sem starfa að eflingu ferðaþjónustu í samstarfi landanna þriggja geta sótt um styrk. Skulu verkefnin fela í sér samstarf milli aðila í tveimur af löndunum þremur hið minnsta. Dæmi um verkefni sem NATA styrkir eru:
- Nýsköpunar- og vöruþróunarverkefni
- Sameiginleg markaðssetningarverkefni
- Þekkingarheimsóknir og miðlun gagnkvæmrar reynslu milli ferðaþjónustuaðila
- Gæða- og umhverfismál innan ferðaþjónustunnar
Hámarksstyrkur verkefnis er 100 þúsund danskar krónur, eða að hámarki 50% kostnaðaráætlunar.
Styrkir vegna kynnis- og námsferða
Um er að ræða ferðastyrki til þeirra sem vinna að samstarfsverkefnum sem varða tvö af löndunum þremur hið minnsta. Hámarksstyrkur á hvern einstakling er 2.000 danskar krónur vegna ferða milli Íslands og Grænlands annars vegar og 1.000 danskar krónur vegna ferða á milli Íslands og Færeyja hins vegar. Ekki eru veittir styrkir vegna gistingar og uppihalds.
Sækja má um styrk til kynnis- og námsferða eftirtaldra:
- Skóla
- Íþróttahópa
- Tónlistarhópa
- Annars menningarsamstarfs
Hvar er sótt um?
Allar umsóknir þurfa að berast með rafrænum hætti á þar til gerðum umsóknarblöðum sem finna má á vef NATA. Vefurinn og umsóknarformin eru bæði á dönsku og ensku.
Skilafrestur
Lokafrestur til að skila umsókn er á miðnætti (GMT) 2. mars 2022. Umsóknir eða fylgigögn sem berast eftir þann tíma verða ekki tekin gild. Niðurstaða stjórnar NATA um úthlutun mun liggja fyrir 31. mars 2022. Athugið að verkefni með áætluð verklok fyrir 31. mars 2022 eru ekki styrkhæf.
Næsti umsóknarfrestur
Um er að ræða fyrri úthlutun af tveimur á árinu 2022. Áætlað er að umsóknarfrestur vegna seinni úthlutunar 2022 verði í október 2022 en það verður auglýst sérstaklega síðar.
Nánari upplýsingar
Upplýsingar um fyrri úthlutanir NATA má sjá á hér.
Nánari upplýsingar gefur starfsmaður NATA, Erla Weihe Johannesen – nata@vinnuframi.fo