Öryggi í og við Grindavík: Kallað eftir öryggisáætlunum - Prófun á rýmingarflautum
Mánudaginn 21. október var opnað fyrir aðgengi að Grindavík. Þrátt fyrir að svæðið sé nú opið er mikilvægt að hafa í huga að ýmsar hættur leynast enn í kring og gæta þarf sérstaks öryggis.
Öryggisáætlunum sé skilað fyrir 4. nóvember
Ferðamálastofa kallar því eftir að allir ferðaþjónustuaðilar, sem skipuleggja ferðir til Grindavíkur og gossvæðisins í nágrenni bæjarins, skili inn öryggisáætlunum fyrir þær ferðir. Frestur til að skila öryggisáætlunum er til mánudagsins 4. nóvember. Skal þeim skilað í rafrænu formi á netfangið oryggi@ferdamalastofa.is.
Leiðbeiningar til fyrirtækja
Örugg Verkfræðistofa hefur tekið saman leiðbeiningar fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem hyggjast starfa á svæðinu í og við Grindavík. Mikilvægt er að aðilar kynni sér þessar leiðbeiningar og þá bendum við einnig á upplýsingar um öryggisáætlanir og gerð þeirra.
Prófanir á rýmingarflautum 30. október
Miðvikudaginn 30. október kl. 11 verður rýmingarflautur prófaðar í Grindavík og Svartsengi. Pófunin er hluti af reglulegri yfirferð á fjarræsibúnaði sem tengdur er flautunum, til að tryggja að hann virki sem skyldi.
Við hvetjum ferðaþjónustuaðila og aðra íbúa til að nýta tækifærið til að æfa framkvæmd eða ferli rýmingar, þó hún sé ekki gerð að fullu. Mikilvægt er að fara reglulega yfir þær áætlanir sem þarf að uppfæra í tengslum við öryggis- og rýmingaráætlanir innan Grindavíkur.
Vinsamlega látið alla innan húss vita að um prófun er að ræða, svo ekki verði misvísandi skilaboð sem leiði til þess að fólk telji um raunverulega rýmingu að ræða. Við biðjum ykkur einnig að upplýsa þá sem kunna að vera óvissir um eðli æfingarinnar.