Pink Iceland hlutu nýsköpunarverðlaun SAF 2012
Nýsköpunarverðlaun SAF – Samtaka ferðaþjónustunnar 2012 voru afhent á Grand Hótel Reykjavík í dag en þetta er í níunda sinn sem samtökin veita verðlaunin.
Ferðaskipuleggjendurnir Pink Iceland hlutu verðlaunin að þessu sinni en fyrirtækið sérhæfir sig í að þjónusta samkynhneigða ferðalanga sem vilja koma til Íslands.
Markaðssetning að þörfum skilgreindra hópa er leiðin til fá til landsins fleiri en þá sem vilja aðeins upplifa náttúru og víðerni, segir í tilkynningu frá SAF. „Landið hefur meira að bjóða og heimsþekkt umburðarlyndi gagnvart samkynhneigðum og sterk réttarstaða þeirra hefur Pink Iceland gert að aðdráttarafli sem leggur til uppbyggingar ferðaþjónustu í takti við þessi markmið.“
Í rökstuðningi segir að eftirfarandi hafi einkum legið til grundvallar ákvörðun dómnefndar:
Nú þegar gestum til landsins fjölgar sem aldrei fyrr er bæði mikilvægt og skynsamlegt að dreifa þessum gestafjölda yfir landið og árið. Forsenda þess að það sé hægt er að greina þann hóp betur sem til landsins sækir, væntingar hans og þarfir, og ekki síst hluta hann niður eftir þessari greiningu. Með vandaðri markaðshlutun og faglegri markaðssetningu sem nýtir sér niðurstöður hennar verður hægt að skapa nýjar vörur sem nýta sér nýjar og jafnvel áður óþekktar auðlindir íslenskrar ferðaþjónustu.
Með verðlaunahöfunum á myndinni eru Árni Gunnarsson, formaður SAF, og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem afhenti verðlaunin.
Nánari upplýsingar og myndir á vef SAF