Fara í efni

Punktar úr starfi FMR - Jan. 2000

Fjárlög fyrir árið 2000
Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2000 urðu nokkrar breytingar á fjárframlögum til ferðamála miðað við árið 1999.
Eftirtaldar eru þær helstu:
Framlög til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum hækkuðu úr 14,8 millj. í 35,8 millj. eða um kr. 21 millj.
Framlag til upplýsingamiðlunar á landsbyggðinni hækkaði úr 5 millj. í 10 millj. eða um kr. 5 millj.
Veitt var kr. 5 millj. til rannsókna, sem er nýr liður.
Fjármagn til verkefna Ferðamálaráðs skv. 8. gr. laga um skipulag ferðamála hækkaði úr 68 millj. í 78 millj. eða um kr. 10 millj.
Fjárveiting til markaðsráðsins hækkaðu úr kr. 30 millj í kr. 50 millj eða um kr. 20 millj.
Ný fjárveiting er til kyninngar- og markaðsverkefnisins í N-Ameríku, sem gengur undir heitinu Iceland Naturally. Fjárveitingin er kr. 49 millj.
Ýmsar aðrar breytingar urðu á einstökum liðum og er alls um að ræða aukningu til verkefna Ferðamálaráðs Íslands og sérstakra markaðsverkefna í ferðamálum um kr. 114,2 milljónir miðað við fjárlög síðasta árs.

Flokkun gististaða
Í dag ( 10. jan ) hafa alls 48 gististaðir óskað eftir flokkun.13 þeirra eru í Reykjavík en 35 utan. Hlutfall gistingar af heildargistirými í landinu sem nú hefur verið samið um flokkun á er verulega meira en hlutfallið í fjölda gististaðanna þar sem stærstu gististaðir landsins hafa gert samning um flokkun.Flokkunin sjálf er nú hafin.

Skrifstofa í París
Eins og ráðsmönnum er kunnugt var Guðrún Kristinsdóttir ráðin sem forstöðumaður í París. Hún hefur hafið störf og vinnur nú að opnun skrifstofunnar og skipulagningu markaðs- og kynningarstarfsins í Frakklandi.

Niðurstöður kannana
Niðurstöðum úr könnun Ferðamálaráðs frá síðastliðnu sumri hefur nú verið dreift.
Auk hefðbundinnar könnunar var nokkuð um það nú að keyptar væru sértækar spurninga, bæði einstök fyrirtæki og samtök.
Nú er að ljúka því fjögurra ára tímabili samanburðarkannana sem ákveðið var að gera árið 1996. Því þarf á næstu mánuðum að taka ákvörðun um hvort framhald verði á og þá hvers konar framhald.

Íslandsbæklingur 2000 fyrir N-Ameríku
Nú í desember kom út sérbæklingur Ferðamálaráðs fyrir N-Ameríku.
Er sá bæklingur að ýmsu leyti frábrugðinn hinum almenna bæklingi okkar og sniðinn að þessum markaði sérstaklega.
Upplag er 75.000 eintök.

Nýtt samstarfsverkefni með Færeyingum og Grænlendingum?
Á fundi í ferðamálaráði Vestnorden nú í haust var ákveðið að boða til fundar aðila frá löndunum þremur þar sem kynnt væri hvað hvert landanna væri að gera á sviði kannana og rannsókna.
Kannað yrði hvort einhver þau verkefni væru hugsanleg á þessu sviði, sem löndin gætu átt samstarf um og þá leitað eftir fjármagni til.
Þessi fundur verður nú 21. janúar í Reykjavík.

Frekari kynning á notkun kannana
Á fundi í ferðamálaráði í haust var samþykkt að efna til fundar með ferðaþjónustuaðilum eftir áramót, þar sem kynnt yrði frekar en áður hvernig hægt er að nýta niðurstöður kannana í markaðsmálum og einnig í þjónustuþættinum.
Þessi fundur verður haldinn 15. febrúar.


Aukin þátttaka í fjölþjóðlegu starfi
Nú fyrir skömmu var kjörin ný stjórn fyrir starfsemi Ferðamálaráðs Evrópu (ETC) í Bandaríkjunum. Fulltrúar landanna 29 í Bandaríkjunum kusu Einar Gustavsson sem formann. Er það í fyrsta sinn sem Íslendingur stýrir starfsemi ETC í Bandaríkjunum.
Eins og áður hefur komið fram förum við nú með formennsku í Ferðamálaráði Vestnorden og á árinu tökum við í fyrsta sinn við formennsku í Ferðamálaráði Norðurlanda og þá m.a. einnig í hlutafélaginu Scandinavian Tourism Inc. í Bandaríkjunum, sem sér um sameiginlega starfsemi okkar þar. Þá hefur undirritaður setið í framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs Evrópu frá síðasta vori.

Hefðbundin verkefni

Auk þessa sem hér hefur verið nefnt eru eðlilega í gangi hefðbundin verkefni þessarar árstíðar. Má þar nefna söfnun og dreifingu upplýsinga,sem nú hefur breyst verulega þar sem vefnum er nú breytt nær daglega, en prentaðar upplýsingar gefnar út í bæklingum og handbókum þrisvar á ári.
Svörun fyrirspurna, sem sífellt aukast í samræmi við breytingar í ferðamynstrinu þ.e. auknum einstaklingsferðum og auknu vægi vetrarferða.
Sýningarþátttaka á næstu mánuðum er meiri en áður. Þá er gífurlega mikið leitað til okkar vegna alls konar upplýsinga um ferðaþjónustu. Er þar bæði um að ræða innlendar og erlendar stofnanir svo og í vaxandi mæli námsfólk. Fer stöðugt meiri og meiri tími í að sinna þessum þætti.
Þá er þetta tími uppgjörs og frágangs fjárhagsáætlunar. Unnið er undirbúningi vegna úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum, sem verða á þessu ári meiri en nokkru sinni fyrr.

MO, jan 2000