Fara í efni

Punktar úr starfi FMR - sept. - okt. 1999

Samgönguráðherra í heimsókn
5. ágúst sl. kom Sturla Böðvarsson samgönguráðherra í heimsókn á skrifstofu ráðsins í Reykjavík og var þar á þriðju klukkustund.
Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna sér starfsemi stofnunarinnar. Eftir að honum hafði verið kynnt starfsemin og hann heilsað upp á starfsfólk
skoðaði hann einnig Upplýsingamiðstöðina. Það var okkur mikið ánægjuefni að fá ráðherrann í slíka kynnisferð og fá
tækifæri til að sýna honum stofnunina og starfsemi hennar. 10. september var hliðstæð heimsókn ráðherra á skrifstofu ráðsins á Akureyri.

Flokkun gististaða
Unnið hefur verið að framgangi þessa máls í samræmi við samþykktir ráðsins. Allur nauðsynlegur undirbúningur af hálfu Ferðamálaráðs er að baki
og nú er kerfið tilbúið til notkunar. Samþykkt var á síðasta fundi ráðsins að ganga til samninga við fyrirtækið
Rekstur og ráðgjöf um framkvæmd úttektar og hefur verið gengið frá þeim
samningi. Þá hefur verið tilnefnt í úrskurðarnefnd vegna staðalsins í samræmi við samning okkar og HORESTA og skipa hana af hálfu Ferðamálaráðs Elías
Gíslason, Pétur Rafnsson og Sigrún Magnúsdóttir, af hálfu SAF Diljá Gunnarsdóttir, Kristófer Oliversson og Pétur Snæbjörnsson.

Rannsóknarverkefni af stað
Ferðamálaráð hefur fengið forverkefnisstyrk að upphæð kr. 2.500.000 frá RANNÍS til að vinna að undirbúningi rannsóknar á
mismunandi forsendum til reksturs ferðaþjónustu í einstökum landshlutum. Þetta er mjög viðamikð verkefni og hefur verið unnið að fyrstu gagnasöfnun
nú í sumar. Þá er í gangi vinna við gerð gagnabankans í samræmi við samkomulag við Háskólann á Akureyri.
Mikill áhugi er nú á þessum nauðsynlega þætti í ferðaþjónustunni. Í mars varð það lögbundið hlutverk Ferðamálaráðs að sinna rannsóknum í
ferðaþjónustu og í framhaldi af því voru gerðir samningar við annars vegar Rannsóknarráð Íslands og hins vegar við Háskólann á Akureyri um samvinnu
við rannsóknir. Nú hafa Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri gert samkomulag um enn frekari samvinnu um rannsóknir í ferðaþjónustu
Loksins á allra síðustu mánuðum virðist því kominn verulegur skriður á þetta viðamikla mál og vonandi að þessi aukni áhugi skili
fjármunum til nauðsynlegra rannsóknarverkefna.

Málþing 4. september
Ferðamálaráð stóð ásamt fleirum fyrir málþingi um skipulag ferðamannastaða 4. september. Ráðið fékk hingað tvo erlenda vísindamenn og
sérfræðinga á þessu sviði til að fjalla um efnið og hafa þeir dvalið hér í nokkurn tíma og unnið með Birni Sigurjónssyni m.a. vegna undirbúnings
þeirra rannsóknarverkefna sem að ofan greindi. Upplýsingar frá málþinginu eru á vef ráðsins.

Vest Norden Travel Mart
Lokaundirbúningur Færeyinga vegna Vestnorden ferðasýningarinnar stendur nú yfir en sýningin er dagana 22.-24. september.
Um eitt hundrað erlend fyrirtæki munu sækja sýninguna í þeim tilgangi að kynna sér og eiga viðskipti við söluaðila frá löndunum þremur.
Eins og áður hefur komið fram fer Ísland nú með formennsku í þessu samstarfi. Samkvæmt samþykktum ráðsins hafa nú í ár verið haldnir tveir
fundir, annar í ráðinu í heild í apríl og nú í ágúst var haldinn fundur ferðamálastjóra landanna þriggja um ýmis málefni samstarfsins.
Þá var fyrir stuttu fundur íslensku fulltrúanna þriggja þar sem sérstaklega var rætt um næsta Vestnorden Travel Mart, sem er á Íslandi árið
2000.

Undirbúningur ferðamálaráðstefnunnar í haust
Samkvæmt ákvörðun ráðsins verður ráðstefnan á Egilsstöðum 7. og 8. október nk. Ákveðið var að rædd yrðu þrjú meginmálefni: Vöruþróun, rekstarumhverfi og rannsóknir í ferðaþjónustu.
Tekist hefur að fá hingað tvo erlenda fyrirlesara. Prófessor Richard Butler er einn þekktasti fræðimaður í ferðaþjónustu í
heiminum og mun hann fjalla um: Hvers vegna rannsóknir í ferðaþjónustu og hvernig á að nýta þær? Þá kemur Lars Sandhal markaðsstjóri danska ferðamálaráðsins og mun hann
fjalla um vöruþróun og sérstaklega samstarf danska ferðamálaráðsins og einstakra landshluta á þessu sviði.

Umræður um ofangreind þrjú málefni fara fram fyrri dag ráðstefnunnar, sem hefst kl. 13:15 þann 7. október.
Umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs fyrir árið 1999 verða afhent. Seinni daginn verður fjallað um málefnin í vinnuhópum þá almennar umræður,
ályktanir o.fl.

Markaðsráð ferðaþjónustunnar
Á fundum markaðsráðsins í sumar hefur verið unnið að gerð markaðsplans og aðgerðaráætlunar. Fyrstu verkefnin eru komin af stað. Unnið er að gerð bæklings vegna hausts og vetrar og samhliða því sem honum verður dreift verða birtar auglýsingar
á viðkomandi svæðum auk annarrar kynningar. Þá er að ljúka gerð myndbands sem snýr fyrst og fremst að því að kynna Reykjavík menningarborg 2000. Þá verður gert almennt myndband vegna Íslandskynningar. Þá hefur markaðsráðið ákveðið að koma að frekari vinnu við vöruþróun á
nokkrum svæðum á landsbyggðinni. Þetta verkefni er komið í vinnslu og verður frekar unnið á næstu fundum ráðsins.

Þátttaka í ferðsýningur í vetur
Íslenskum ferðaþjónustuaðilum hafa nú verið sent bréf og boðin þátttaka í fjölda ferðasýninga, sem Ferðamálaráð mun taka þátt í.
Viðbrögðin virðast sterkari enn oft áður og er t.d. meiri ásókn í sýninguna World Travel Mart í London nú í nóvember enn fyrr.
Þá er aukinn áhugi á nýjum svæðum eins og t.d. í Frakklandi.

Mikil verkefni í umhverfismálum
Í samræmi við samþykktir Ferðamálaráðs í febrúar og í apríl hefur
verið unnið að úrbótum á ferðamannastöðum í sumar. Þessar framkvæmdir hafa verið viðameiri enn fyrr og unnið að úrbótum á
fjölda ferðamannastaða. Á þessu ári verður einnig unnið fyrir hærri fjármuni en áður, en til verkefnanna fara um 22 milljónir á árinu. Stærstu verkefnin eru í Landmannalaugum, við Leirhnjúk í Mývatnssveit og
bætt aðgengi við hellana í Hallmundarhrauni auk úrbóta við Gullfoss.

Fundur í framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs Evrópu
Nú í lok ágúst sótti undirritaður fund í framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs Evrópu.
Meginverkefni fundarins var gerð fjárhagsáætlunar vegna ársins 2000. Velta ETC er um Is.kr. 100 milljónir auk þess sem aflað er frá
fyrirtækjum, sem er svipuð tala. Meginhluti fjármagnsins fer til sameiginlegra markaðsverkefna í
Bandaríkjunum og til kannana og rannsókna. Fyrir liggur að aðgangur okkar að niðurstöðum alls konar markaðsrannsókna í
ferðaþjónustu mun aukast verulega á næstu mánuðum. Það á ekki síst við um rannsóknir sem verða unnar í Bandaríkjunum, þar sem við höfum komið að undirbúningi.

Aðalfundur Ferðamálaráðs Norðurlanda
Undirbúningur stendur nú yfir vegna aðalfundar Ferðamálaráðs Norðurlanda, sem verður haldinn 5. október.
M.a. verður þar rætt um möguleika á enn frekari samvinnu á sumum okkar markaðssvæða, þar sem slíkt gæti verið okkur hagkvæmt og
árangursríkt. Samkomulag er um að Ísland taki við formennsku í Ferðamálaráði Norðurlanda árið 2000 og er það í fyrsta sinn sem Ísland verður þar í forystu.

Erindi um horfur og þróun í ferðaþjónustu
Eins og áður er mikið beðið um erindi um þróun og horfur. Á þetta ekki síst við hjá ýmis konar félagasamtökum.
Ber að fagna auknum áhuga á að kynnst málefnum ferðaþjónustunnar. Nú síðast var undirritaður með slíka kynningu á aðalfundi Samtaka
Austfirskra sveitarfélaga í lok ágúst og 11. sept á aðalfundi Ferðamálasamtaka Vestfjarða þar sem markaðsmálin voru sérstaklega rædd. 15.
september var svo farið yfir þróun og horfur með stjórnendum í Leifsstöð svo nokkur dæmi séu nefnd.

Íslandsbæklingur 2000
Nú í september verður Íslandsbæklingur vegna ársins 2000 tilbúinn til dreifingar. Er það nokkru fyrr en undanfarin ár.

Hefðbundin verkefni
Auk þessa sem hér hefur verið nefnt eru eðlilega í gangi hefðbundin verkefni þessarar árstíðar sem einkenndist auðvitað einnig nokkuð af
sumarfríum starfsfólks. Má þar nefna söfnun og dreifingu upplýsinga,sem nú hefur breyst verulega
þar sem vefnum er nú breytt nær daglega, en prentaðar upplýsingar gefnar út í bæklingum og handbókum þrisvar á ári.
Svörun fyrirspurna, sem sífellt aukast í samræmi við breytingar í ferðamynstrinu þ.e. auknum einstaklingsferðum.
Þá er unnið að gerð handbókar fyrir bandaríska markaðinn, SAM. Kannanir Ferðamálaráðs eru unnar nú þriðja árið í röð og niðurstöður
birtast orðið reglulega. Mikið hefur verið um móttökur ferðaskrifstofufólks og fjölmiðlafólks frá
okkar markaðssvæðum undanfarna mánuði. Þá hefur verið reynt að sinna vettvangsferðum og nokkuð hefur þurft að
sinna kvörtunum.


Úr starfinu í október

Flokkun gististaða
Kerfið hefur nú verið kynnt um 400 gististöðum með því að senda þeim upplýsingar og gæðastaðalinn. Þá er gæðastaðallinn á okkar vefsíðu.
Fyrstu gististaðirnir hafa nú pantað flokkun og er flokkunin sjálf því hafin, en frekari kynning og auglýsingar á gæðastalinum verða á næstu vikum.

Vinna við gagnagrunninn
Í samræmi við samkomulag milli Ferðamálaráðs og Háskólans á Akureyri er unnið að gerð gagnagrunns ferðaþjónustunnar.
Myndaður hefur verið vinnuhópur um verkið með fulltrúum Ferðamálaráðs, Háskólans á Akureyri, Þjóðhagsstofnunar, Hagstofunnar og SAF.

Markaðsráð ferðaþjónustunnar
Ráðið hefur nú í samræmi við þá markaðsáætlun sem verið hefur til umræðu á fundum ráðsins ráðstafað um 53 milljónum af þeim 70 milljónum sem
eru til ráðstöfunar á árinu. Fjármunum hefur verið varið að meginhluta til gerðar þess
kynningarefnis,sem sagt var frá í síðasta minnisblaði og til auglýsinga á okkar stærstu markaðssvæðum.

Enn frekara fjármagn til markaðsmála
Í framhaldi af niðurstöðum Fleishmann Hillard hefur náðst samkomulag milli stjórnvalda og nokkurra fyrirtækja um átak í kynningu á
vörum í N-Ameríku á næstu fimm árum undir heitinu "Iceland naturally". Tryggðar eru um 350 milljónir til verkefnisins.
Samgönguráðherra hefur skipað sjö manna stýrihóp vegna verkefnsins og er Ómar Bendiktsson formaður, en framkvæmd verkefnisins verður vistuð á
skrifstofu Ferðamálaráðs í New York.

Bæklingur í Leifsstöð
Í samræmi við samþykkt Ferðamálaráðs hefur verið unnin bæklingur til dreifingar á "transit" svæði Leifsstöðvar. Tilgangurinn er að koma
upplýsingum um land og þjóð svo og um "stop-over" möguleika til þeirra sem fara um völlinn án þess að koma inn í landið.
Bæklingurinn var unnin í samvinnu við Flugleiðir og er dreifing nú hafin í Leifsstöð.

Upplýsingatækni í ferðamálum
Ferðamálastjóra var falið í sumar af samgönguráðherra að vinna að tillögum að stefnumótun og áætlun um verkefni á sviði upplýsingatækni í
ferðamálum. Myndaður var faghópur innan stofnunarinna í samræmi við erindi ráðherra.
Samstarf hefur verið við fjölmarga aðila við vinnslu þessa verkefnis og verður tillögum að stefnumótun, framkvæmd og fjármögnun skilað til ráðherra
nú í nóvember.

Aðalfundur Ferðamálaráðs Evrópu
Aðalfundur Ferðamálaráðs Evrópu var haldinn nú í október í Bandaríkjunum. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var haldin ráðstefna um stöðu evrópskrar
ferðaþjónustu í Bandaríkjunum. Fjöldi fyrirlesara fór yfir sviðið auk þess em kynntar voru frumniðurstöður
úr könnun ráðsins á þessu markaðssvæði. Sumar þessar tölur voru mjög athyglisverðar og munu komast í umræðu smám
saman... Nokkrar af frumniðurstöðum könnunar ETC í USA fylgja hér með.

Aðalfundur Ferðamálaráðs Norðurlanda
Aðalfundur Ferðamálaráðs Norðurlanda var einnig haldinn nú í október í Kaupmannahöfn.
Miklar umræður fóru þar fram um samstarf okkar í Bandaríkjunum og er meðfylgjandi skýrsla um það samstarf.
Eins og áður hefur komið fram tekur Ísland við formennsku í þessu samstarfi árið 2000.

Vestnorden
Á vegum Vestnorden ferðamálaráðsins er nú unnið að tveimur nýjum verkefnum í samræmi við samþykktir ráðsins.
Fengist hefur fjárveiting frá NORA til sérstaks "uddannelsesprogram" fyrir starfsfólks ferðaskrifstofa í Danmörku þar sem því verður kynnt
ferðaþjónusta í löndunum þremur. Þá er að hefjast sameiginlegt verkefni á sviði tölfræði og kannana og munu
fulltrúar landanna á þessu sviði eiga fyrsta fund um verkefnið í þessum mánuði. Þá er Vestnorden með sameiginlega þátttöku á ferðasýningunni í Bella
Center í Kaupmannahöfn árið 2000.

Borist hafa niðurstöður úr könnun,sem gerð var meðal kaupenda og seljenda á Vestnorden ferðakaupstefnunni í Þórshöfn í september og fylgja þær hér með.

Ferðamálaráðstefnan 1999
Ráðstefnan var haldin 7. og 8. október. Þátttaka var meiri en fyrr en alls skráðu sig nær 200 manns á ráðstefnuna.
Ekki verður hér farið efnislega í umræður á ráðstefnunni enda stutt í að fundargerð ráðstefnunnar verði aðgengileg á samskiptavef ráðsins.

Skrifstofa í París
Í samræmi við samþykkt fyrrv. ferðamálaráðs lýkur starfstíma A. Quitar í lok þessa árs.
Afhending húsnæðis hefur dregist verulega, en nú er gert ráð fyrir að það verði tilbúið í byrjun desember.
Auglýst var eftir forstöðumanni og bárust 12 umsóknir.

Niðurstöður kannana
Niðurstöðum úr könnun Ferðamálaráðs frá síðastliðnu sumri verður dreift fljótlega.
Auk hefðbundinnar könnunar var nokkuð um það nú að keyptar væru sértækar spurningar.
Ýmislegt í niðurstöðunum er mjög athyglisvert og sýnir verulegar breytingar í ýmsum þáttum frá fyrri sumrum.
Niðurstöðunum verður dreift fljótlega.

Íslandsbæklingur 2000
Íslandsbæklingur ráðsins vegna ársins 2000 kom út í september sem er nokkru fyrr en undanfarin ár.
Upplagið var meira enn fyrr og tungumál fleiri, þar sem finnsku var nú bætt við.

Fjárhagsáætlun 2000
Eins og ráðsmönnum er kunnugt er nú unnið að gerð fjárhagsáætlunar
fyrir árið 2000 og var forsendum og upplýsingum vegna þeirrar vinnu dreift
á síðasta fundi ráðsins.

Skýrsla um úrbætur á ferðamannastöðum
Árið 1995 var gerð skýrsla um nauðsynlegar úrbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum. Hefur hún verið lögð til grundvallar við ákvöðrun um
notkun fjár til úrbóta. Nú hefur verið unnin ný skýrsla og var hún unnin af hóp frá Ferðamálaráði,
Náttúruvernd ríkisins og Vegagerðinni. Þessi nýja skýrsla er nú tilbúin og í prentun .

Verkefni Markaðsráðs og Ráðstefnuskrifstofu
Eins og öllum mun kunnugt er framkvæmd verkefna Markaðsráðs og Ráðstefnuskrifstofunnar vistuð hjá Ferðamálaráði og verkefnin unnin af
starfsólki þess. Þá hefur nú verið ákveðið að vista verkefni sérstaks kynningarátaks næstu fimm ára í N-Ameríku á skrifstofunni í New York.

Hefðbundin verkefni
Auk þessa sem hér hefur verið nefnt eru eðlilega í gangi hefðbundin verkefni þessarar árstíðar.
Má þar nefna söfnun og dreifingu upplýsinga,sem nú hefur breyst verulega þar sem vefnum er nú breytt nær daglega, en prentaðar upplýsingar gefnar út
í bæklingum og handbókum þrisvar á ári. Svörun fyrirspurna, sem sífellt aukast í samræmi við breytingar í ferðamynstrinu þ.e. auknum einstaklingsferðum.
Sýningarþátttaka á næstu mánuðum meiri en nokkru sinni fyrr. Mikið hefur verið um móttökur ferðaskrifstofufólks og fjölmiðlafólks frá
okkar markaðssvæðum undanfarna mánuði. Þá hefur verið reynt að sinna vettvangsferðum og nokkuð hefur þurft að
sinna kvörtunum. Þá er gífurlega mikið leitað til okkar vegna alls konar upplýsinga um ferðaþjónustu. Er þar bæði um að ræða innlendar og erlendar stofnanir svo
og í vaxandi mæli námsfólk. Fer stöðugt meiri og meiri tími í að sinna þessum þætti.

M.O. okt. 1999