Ráðstefna um þolmarkarannsóknir 25. maí
Þingvellir í vetrarham. Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson
Þann 25. maí (ath. breytta dagsetningu frá upphaflegri auglýsingu) mun Ferðamálastofa halda ráðstefnu þar sem kynntar verða þolmarkarannsóknir og tengd verkefni sem stofnunin ákvað árið 2014 að láta ráðast í. Ráðstefnan verður á Grand Hótel Reykjavík kl. 13-16.
Eru ferðamenn of margir?
Ástæðu þess að Ferðamálastofa ákvað að láta ráðast í verkefnið má rekja til hinnar miklu fjölgunar ferðamanna hér á landi og þess álags sem af henni skapast. Því höfðu vaknað spurningar um hvort ferðamenn væru nú þegar of margir á vinsælustu áfangastöðum landsins.
Átta vinsælir staðir
Fyrst má telja verkefni sem snýr að átta vinsælum ferðamannastöðum á Suður- og Vesturlandi. Annars vegar var verkefnið að rannsaka þolmörk ferðamanna á áfangastöðunum og hins vegar að meta fjölda ferðamanna sem þangað koma. Anna Dóra Sæþórsdóttir dósent við Háskóla Íslands annaðist þann verkþátt sem snéri að þolmörkum og viðhorfum ferðamanna en dr.Rögnvaldur Ólafsson sá hins vegar um mat á fjölda ferðamanna.
Þolmörk heimafólks
Tengd verkefni snúa að rannsókn á samfélagsleg þolmörkum og viðhorfum heimafólks til ferðaþjónustu, sem Ferðamálastofa stendur að í samstarfi við Rannsóknamiðstöð ferðamála og Háskólann á Hólum og afmarkaðri verkefni sem sem lúta að þolmörkum náttúru og stýrt er af Rannveigu Ólafsdóttur, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.
Nánari dagskrá og skráning mun koma á vefinn innan tíðar en um að gera að taka daginn strax frá.