Ræðismannaráðstefna og Íslandskynning
Í liðinni viku fór fram ræðismannaráðstefna í Washington sem skipulögð var af sendiráði Íslands í Bandaríkjunum. Var megintilgangur að veita ræðismönnum Íslands í umdæmi sendiráðsins ítarlegar upplýsingar um stöðu efnahags-, utanríkis- og annarra mála á Íslandi, kynna viðskiptatækifæri í Bandaríkjunum og efla tengsl Íslands og Bandaríkjanna á sem flestum sviðum, þar á meðal innan ferðaþjónustunnar og menningar,- orku- og viðskiptageiranna.
Haustfundur Íslensk - ameríska viðskiptaráðsins
Fundinn sóttu á þriðja tug ræðismanna, auk fulltrúa verkefnisins Iceland Naturally, Ferðamálastofu og fulltrúa IMF, Mark Flanagan, sem hélt ítarlegt erindi fyrri daginn. Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, tók þátt í ráðstefnunni, en hún var aðalræðumaður á haustfundi Íslensk - ameríska viðskiptaráðsins (IACC) sem að þessu sinni var haldinn í Washington, en var að vanda skipulagður af aðalræðisskrifstofu Íslands í New York. Fundur IACC var haldinn í beinu framhaldi af ræðismannaráðstefnunni og tóku margir ræðismenn einnig þátt í honum.
Kynning á íslenskum vörum
Sama dag og ræðismannaráðstefnan hófst byrjaði fimm daga kynning í verslunum Whole Foods Markets í Washington á lambakjöti, ostum, smjöri, súkkulaði og skyri frá Íslandi sem markaðsverkefnið Áform stóð að á vegum Bændasamtaka Íslands. Matreiðslumeistarinn Siggi Hall kitlaði bragðlauka viðskiptvina verslananna. Whole Foods Markets er meðal þekktustu og bestu matvöruverslanakeðja Bandaríkjanna og selur, auk ofangreindra íslenskra afurða, íslenskt vatn, bleikju og ferskan fisk.
Á myndinni má sjá hluta þátttakenda í hádegisverðarfundi IACC að honum loknum. Fremst á myndinni má sjá Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðar-, orku- og ferðamálaráðherra, á milli sendiherrahjónanna Hjálmars W. Hannessonar og Önnu Birgis og Hlyn Guðjónsson, ræðismann í New York og framkvæmdastjóra Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins.