Rannsóknir á íslenskum ferðaþjónustureikningum hljóta verðlaun á alþjóðavettvangi
Dr. Cristi Frenţ, sérfræðingur Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, hlaut á dögunum verðlaun á alþjóðlegri ráðstefnu um stefnumörkun í ferðaþjónustu fyrir fræðigrein sem hann kynnti og fjallar um vinnu við ferðaþjónustureikninga á Íslandi.
Ráðstefnan var haldin í London af Alþjóðasamtökunum um stefnumörkun í ferðaþjónustu (e. International Association for Tourism Policy, IATOUR). Grein Cristis var önnur tveggja greina sem þóttu framúrskarandi og voru valdar úr hópi tilnefninga af vísindaráði ráðstefnunnar. Verðlaunin, sem voru afhent með viðhöfn í lok ráðstefnunnar, eru til marks um viðurkenningu á alþjóðavettvangi á þeirri vinnu við íslenska ferðaþjónustureikninga sem Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur unnið að síðustu tvö ár í samstarfi við Hagstofu Íslands.