Rauðaskriða bætist í hóp flokkaðra gististaða
Á dögunum fjölgaði flokkuðum gististöðum hérlendis þegar Gistiheimilið Rauðaskriða í Aðaldal bættist í hópinn. Rauðaskriða er þriggja stjörnu gististaður og býður gistingu í 18 tveggja manna herbergjum með baði. Ennfremur er boðið upp á gistingu í 2-4 manna sumarhúsi.
Rauðaskriða er landnámsjörð, fornt höfuðból og löngum sýslumannssetur sem stendur vestan í Fljótsheiði, norðarlega og liggur að Skjálfandafljóti. Gestgjafar eru þau Kolbrún Úlfsdóttir og Jóhannes Haraldsson og segjast þau njóta góðs af því að vera vel staðsett miðsvæðis á Norðurlandi. Stutt er í margar helstu náttúruperlur svæðisins, svo sem Mývatnssveit, Jökulsárgljúfur og Goðafoss. Um 38 km eru til Húsavíkur og litlu lengra til Akureyrar. Rauðaskriða er innan ferðaþjónustu bænda. Heimasíða Rauðuskriðu
Allir gististaðir geta sótt um flokkun
Um helmingur gistirýmis hérlendis er nú flokkaður samkvæmt flokkunarkerfi sem Ferðamálaráð Íslands heldur utan um og hófst árið 2000. Allir gististaðir á Íslandi sem eru með tilskilin leyfi geta óskað eftir því að vera flokkaðir og í kjölfar skipulagsbreytinga á síðasta ári, þar sem m.a. tókst að lækka talsvert kostnað við flokkunina, hefur flokkuðum gististöðum fjölgað talsvert. Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri tekur við umsóknum um flokkun og veitir nánari upplýsingar í síma 464 9990 eða netfangið upplysingar@icetourist.is. Umsóknir þurfa að berast í pósti eða á faxi, meðfylgjandi þarf að vera rekstrarleyfi frá sýslumanni.
Nánar um flokkun gististað með stjörnugjöf