Fara í efni

Reglur um flokkun tjaldsvæða samþykktar

Tekjukönnun SAF fyrir apríl
Tekjukönnun SAF fyrir apríl

Eins og fram kemur í nýju fréttabréfi Ferðamálaráðs, Ferðafréttum, hefur að forgöngu Ferðamálaráðs að undanförnu verið unnið að reglum um flokkun tjaldsvæða. Tilgangurinn er að auðvelda ferðalöngum að átta sig á þeirri þjónustu sem í boði er á viðkomandi stað og vera rekstraraðilum stuðningur við uppbyggingu tjaldsvæðis.

Tillögur frá verkefnisnefnd
Síðastliðið haust var stofnuð verkefnisnefnd til að vinna tillögur að flokkun tjaldsvæða. Nefndina skipuðu, auk umhverfisfulltrúa Ferðamálaráðs, sem var verkefnisstjóri, fulltrúar Ferðamálasamtaka Íslands, Samtaka ferðaþjónustunnar, Félags ferðamálafulltrúa, Bandalags íslenskra Farfugla og Ferðaþjónustu bænda. Við undirbúning málsins var stuðst við flokkunarkerfi sem notuð eru í Noregi og Danmörku. Nefndin skilaði af sér tillögum sem samþykktar voru á fundi Ferðamálaráðs Íslands. Í framhaldinu er síðan áætlað að gefa út leiðbeiningarrit um rekstur og uppbyggingu tjaldsvæða.

Gestir sjá um eftirlitið
Í reglunum er gengið út frá flokkun tjaldsvæða með stjörnugjöf frá einni upp í fimm stjörnur. Ekki er gert ráð fyrir að tjaldsvæði beri sérstakan kostnað þátttöku í flokkuninni heldur er framkvæmdin hugsuð með þeim hætti að rekstraraðilar tjaldsvæðis ákveði í hvaða flokki þeir vilji vera, setji flokkunarviðmið upp á áberandi stað á tjaldsvæðinu og síðan sé það gesta að ganga eftir því að svæðið standist þær kröfur sem stjörnugjöf þess gerir ráð fyrir. Rekstraraðilum tjaldsvæða er í sjálfsvald sett hvort þeir taka þátt í flokkuninni en gera má ráð fyrir að þegar fram í sækir leitist gestir frekar við að gista á tjaldsvæðum þar sem þeir vita að hverju þeir ganga.

Tjaldsvæði - flokkar

  • Tjaldsvæðið skal vera greinilega afmarkað og fjárhelt.
  • Tjaldstæði skulu vera slétt og vel hirt.
  • Aðkeyrsla að svæðinu skal vera greiðfær og örugg.
  • Svæðið skal vera greinilega merkt svo og akstursleiðir um það.
  • Á svæðinu skal vera búnaður til "Fyrstu hjálpar" hjá umsjónaraðila.
  • Upplýsingatafla skal vera til staðar með umgengnisreglum og símanúmeri hjá umsjónaraðila.
  • Á svæðinu skal vera daglegt eftirlit.
  • Fjöldi salerna og vaska skal vera a.m.k. í samræmi við viðmið Hollustuverndar. Það er fyrir < 200 gesti 2 salerni, þ.a. eitt aðgengilegt fötluðum, 201-300 gestir 3 salerni, 401-600 gestir 4 salerni, o.s.frv.
  • Sorp skal fjarlægt reglulega.
  • Öllum mannvirkjum á svæðinu skal vera vel við haldið.
  • Öll aðstaða á svæðinu skal vera greinilega merkt.
  • Upplýsingar um neyðarnúmer skulu vera a.m.k. á ísl./ensku.


Í viðbót við flokk eitt kemur:

  • Starfsfólk hafi að lágmarki tveggja tíma viðveru yfir daginn.
  • Upplýsingatafla með viðverutíma starfsfólks skal hanga uppi.
  • Þjónustusvæði skal vera upplýst.
  • Aðgangur skal vera að síma allan sólarhringinn í næsta nágrenni.
  • Tekið sé við greiðslukortum.
  • Borð og bekkir séu á svæðinu.
  • Leikaðstaða sé fyrir börn.


Í viðbót við ofanritað skal vera:

  • Starfsfólk hafi fasta viðveru á álagstímum (dæmi: 8-10 og 17-21) og næturvakt skal vera um helgar.
  • Gestamóttaka skal vera aðgengileg með svæðisupplýsingum og um önnur tjaldsvæði.
  • Borð og stólar undir þaki.
  • Veglýsing að og um svæðið.
  • Póstkassi skal vera á svæðinu.
  • Aðgangur sé að þvottavél og þurrkaðstöðu.
  • Aðstaða til sorpflokkunar. (a.m.k. samkvæmt lágmarkskröfum um förgun spilliefna)
  • Á svæðinu skal vera aðstaða til losunar affallsvatns og seyru af húsbílum.
  • Heitt og kalt vatn skal vera á svæðinu.
  • Hægt sé að fá allar upplýsingar um svæðið og leggja inn gistipantanir utan opnunartíma svæðisins.


Í viðbót við ofanritað skal vera:

  • Starfsfólk hafi fasta viðveru á svæðinu frá kl. 07:00-23:00 alla daga.
  • Gestir hafi aðgengi að nettengingu.
  • Sérstök stæði skulu vera fyrir húsbíla og fellihýsi með aðgengi að rafmagni.


Í viðbót við ofanritað skal vera:

  • 24 tíma viðvera alla daga.
  • Veitingasala sé á staðnum.

Skýringar á texta:
Tjaldsvæði = Afmarkað svæði ætlað fjölda tjalda
Tjaldstæði = Staður innan afmarkaðs tjaldsvæðis ætlað stöku tjaldi (fellihýsi, húsbíl...)