Rekstur hafinn undir merkjum Hilton Reykjavík Nordica
Í gær voru fánar Hilton Reykjavík Nordica hótels dregnir að húni í fyrsta skipti í hlaðvarpa þess sem áður hét Nordica hótel. Hefst þá rekstur hótelsins undir alþjóðlegum merkjum.
Í frétt frá hótelinu kemur fram að Hilton keðjan sé ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum, með öflugt tengslanet um heim allan. ?Í Vildarklúbbi Hilton keðjunnar eru skráðir um 11 milljónir meðlima. Það er því einstakt sóknarfæri fólgið í því að tengjast viðskiptaneti Hilton, ekki síst tækifæri til þess að festa Reykjavíkurborg enn frekar í sessi sem spennandi áfangastað alþjóðlegra ráðstefnu- og hvataferðahópa sem og annarra ferðalanga sem leita til Hilton keðjunnar um gistingu. Innleiðing Hilton vörumerkisins markar jafnframt tímamót í hótelrekstri á Íslandi. Sú þekking og reynsla sem starfsfólki hótelsins er nú veittur aðgangur að er ómetanleg, og mun reynast vel í samkeppni Hilton Reykjavík Nordica við sína helstu keppinauta í öðrum ört vaxandi ferðamannaborgum í Evrópu,? segir m.a. í fréttatilkynningu.
Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group, segir samninginn við Hilton Corporation vera til marks um metnaðarfullan og kröftugan rekstur Icelandair Hotels. "Á undanförnum árum hefur orðið algjör viðsnúningur í hótelrekstri samstæðunnar og hér hefst nýr spennandi kafli. Við vinnum stöðugt að því að renna fleiri sterkum stoðum undir reksturinn, og íslenska ferðaþjónustu, og það er okkur mikilvægt að fá jafn sterk vörumerki og Hilton í okkar lið".
Nordica hótel var opnað á ný fyrir þremur árum eftir miklar breytingar. Það er 252 herbergja, fjögurra stjörnu hótel, með veitingastaðnum, VOX, líkamsræktaraðstöðu, Nordica Spa, og ráðstefnuaðstöðu með 11 fundarsölum sem rúma allt að 650 manns í stærsta salnum.
Fyrsta Hilton hótelið var stofnað í Cisco í Texas í Bandaríkjunum af Conrad Hilton árið 1919, en þau eru nú um 500 talsins um allan heim. Auk þess rekur Hilton fyrirtækið aðrar hótelkeðjur, sem saman telja meira en 2.800 hótel