Ríkisstjórnin samþykkir allt að 350 milljónir króna í kynningarátak á íslandi
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja allt að 350 milljónir króna í kynningarátak á Íslandi, vegna fyrirsjáanlegrar fækkunar ferðamanna til Íslands. Katrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og ferðamálaráðherra, sagði að sérstakt viðbragðsteymi stjórnvalda og aðila í ferðaþjónustu hefði starfað frá því eldgosið í Eyjafjöllum hófst. Mjög mikilvægt væri að koma því á framfæri við umheiminn að ferðamenn væru öruggir á Íslandi. Ríkisstjórnin myndi leggja allt að 350 milljónir króna til kynningar á landinu, móti sams konar framlagi frá aðilum í ferðaþjónustu, sveitarfélögum og öðrum sem hefðu hag af ferðaþjónustunni. Heildarframlög til kynningarmála gætu því orðið allt að 700 milljónir króna.
Katrín sagði að fjármununum yrði varið til beinna auglýsinga sem og kynninga, t.d. fyrir ferðaheildsöluaðila. Í raun væri um fjárfestingu að ræða því kynningin myndi bæði skila auknum skatttekjum og verja fjárfestingu undanfarinna ára í ferðaþjónustunni.