Samgönguráðherra á fundum með kínverskum ferðamálayfirvöldum
Nú er lokið opinberri heimsókn Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra til Kína. Í ferðinni hitti ráðherrann bæði ferðamálaráðherra Kína og formann ferðamálaráðs Shanghai, auk þess að sækja stærstu ferðasýningu Asíu.
Á fundi með ferðamálaráðherra Kína, Hr. Shao Qiwei, lögðu ráðherrarnir áherslu á að efla þyrfti frekar grunn að samskiptum þjóðanna á sviði ferðamála. Þá ræddu ráðherrarnir möguleg skipti sérfræðinga í ferðaþjónustu á milli landanna. Ferðaþjónustu á Íslandi stæði þannig til boða að fá kynningu frá kínverskum ferðamálasérfræðingum um hvernig best skuli staðið að móttöku ferðamanna frá Kína. Hr. Shao Qiwei sagði gríðarleg tækifæri felast í auknum fjölda ferðamanna frá Kína fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi. Fundurinn fór fram í Kunming þar sem samtímis var haldin stærsta ferðasýning Asíu, China International Travel Mart. Fjögur íslensk ferðaþjónustufyrirtæki tóku þátt í sýningunni (Ferðaþjónusta bænda, Allrahanda, Jarðböðin við Mývatn, Icelandair og Icelandair Travel) auk Ferðamálaráðs og sendiráðs Íslands í Peking.
Í Shanghai átti samgönguráðherra fund með Jin Fang, formanni ferðamálaráðs Shanghai. Þar kom m.a. fram að til að auka ferðalög Kínverja til Íslands er mikilvægt að koma á beinu flugi á milli landanna. Hvað aukin tækifæri varðar má geta þess að ef spá Alþjóða ferðamálasamtakanna, World Tourism Organization, gengur eftir mun kínverskum ferðamönnum fjölga um helming frá því sem nú er á næstu 15 árum, eða úr 20 milljónum árið 2005 í 40 milljónir árið 2020. Aðeins lítið brot þeirra kemur nú hingað til lands og því um óplægðan akur að ræða að mestu leyti.
Á myndinni, sem fengin er af vef Samgönguráðuneytisins, er Sturla Böðvarsson á fundi með ferðamálaráðherra Kína, Hr. Shao Qiwei,