Samræmt átak til kynningar á málstað Íslands - Kynningarfundir á helstu mörkuðum í Evrópu
Að frumkvæði Ferðamálastofu er nú að hefjast röð kynningarfunda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu í Evrópu. Um er að ræða samstarf við utanríkisráðuneyti, Útflutningsráð, Samtök ferðaþjónustunnar og Höfuðborgarstofu.
Styrkur í samræmdum aðgerðum
Gríðarlegur styrkur er fólginn í því að þessir öflugu aðilar taki höndum saman í samræmdu átaki við að kynna málstað Íslands erlendis. Sem kunnugt er hefur á síðustu vikum mjög verið horft til ferðaþjónustu sem lið í eflingu íslensks atvinnulífs og mikilvægt að nýta tækifærin sem nú eru uppi í þeim efnum.
Tilefnislaus fréttaflutningur erlendis
Að sögn Ólafar Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra má rekja hvatann að ferðinni til þess að Ferðamálastofu hafa að undanförnu borist fregnir af tilefnislausum fréttaflutningi um stöðu þjónustugreina á Íslandi og hafa söluaðilar á erlendri grundu haft samband við íslenska ferðaþjónustuaðila og lýst yfir áhyggjum sínum af sölumöguleikum á ferðum til landsins. Til að bregðast við þessu ákvað Ferðamálastofa að kanna grundvöll fyrir ferð á helstu markaði okkar í Evrópu, til kynningar á stöðu mála á Íslandi og hvatningar til söluaðila okkar erlendis.
Meginmarkmið með ferðinni er að hitta söluaðila Íslands á erlendri grundu, ræða stöðu mála á Íslandi, fullvissa um að óstaðfestar fregnir af vandræðum séu ekki réttar og hvetja til dáða í sölu á Íslandsferðum. Einnig hafa verið skipulagðir blaðamannafundir í hverju landi. Í ferðinni verður farið til Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Þýskalands (Frankfurt) og Frakklands. Að sinni var ákveðið að bíða með að kynna stöðu mála í Hollandi og Bretlandi. Starfsmenn Ferðamálastofu og formaður Ferðamálaráðs eru nú að kynna Ísland á World Travel Market ferðasýningunni í London en ekki þótti rétt að fara út í frekari aðgerðir þar fyrr en staða mála skýrist.
Ferðaáætlun og dagskrá funda
Fundaferðin hefst í Stokkhólmi fimmtudaginn 13. nóvember og daginn eftir er fundað í París. Á mánudeginum þar á eftir er síðan komið að Kaupmannahöfn, þá Frankfurt og endað í Osló. Fundirnir hefjast með ávarpi sendiherra á hverjum stað, formaður SAF mun kynna stöðu mála eins og hún snýr að fyrirtækjum, ferðamálastjóri mun þá fara yfir framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu og forstöðumaður Höfuðborgarstofu kynna sölumöguleika og nýjungar.