Samstarf í kynningarmálum vestanhafs til umræðu
Eins og áður hefur komið fram verður aðalfundur Ferðamálaráðs Norðurlanda haldinn hér á landi dagana 5.-6. september nk. Þátttaka er góð og verður fundurinn óvenju fjölmennur.
Meginefni fundarins er framhald á hinu mikilvæga samstarfi sem Ísland, Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Finnland hafa með sér í kynningarmálum í Bandaríkjunum en þar reka þau saman fyrirtækið Scandinavian Tourism Inc. í New York. Til fundarins koma fjórir formenn ferðamálaráðanna, þ.e. allir nema sá norski, allir ferðamálastjórar landanna fimm, fjórir markaðsstjórar og loks koma tveir starfsmenn Scandinavian Tourism. Verður jafnframt haldinn stjórnarfundur í fyrirtækinu við þetta tækifæri. Að sögn Magnúsar Oddssonar, ferðamálastjóra, koma makar nokkurra hinna erlendu gesta með þeim. Nýta sumir tækifærið og dvelja hér lengur og skoða sig um, auk þess sem farið verur í stutta kynnisferð síðdegis föstudaginn 6. september. Ísland fer nú með formennsku í Ferðamálaráðs Norðurlanda en á þessum aðalfundi munu Norðmenn taka við því hlutverki.
Myndatexti: Framhald samstarfs í kynningarmálum í Bandaríkjunum verður til umræðu á aðalfundi Ferðamálaráðs Norðurlanda í Reykjavík síðar í vikunni.