Samstarf um auknar forvarnir og öryggi í afþreyingarferðaþjónustu
Frá undirritun samstarfssamnings um auknar forvarnir og öryggi í ferðaþjónustu. Þorvaldur Friðrik Hallsson, varaformaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF og Áslaug Briem, verkefnastjóri gæðamála hjá Ferðamálastofu.
Í gær var undirritaður samstarfssamningur milli Samtaka ferðaþjónustunnar, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Ferðamálastofu fyrir hönd Vakans um auknar forvarnir og öryggi í ferðaþjónustu. Markmiðið með samningnum er að bæta námsframboð og þjálfun starfsmanna í afþreyingarferðaþjónustu á Íslandi með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar eru í Vakanum - gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar.
Laga að þörfum ferðaþjónustunnar
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) höfðu frumkvæði að því að efla samstarf milli ofangreindra aðila með það fyrir augum að aðlaga betur fjölbreytt námsefni Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar og heimasíðu að þörfum ferðaþjónustunnar. Sérstakur rýnihópur sem samanstóð af fulltrúum fyrirtækja innan SAF ásamt fulltrúum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Ferðamálastofu hafa unnið að endurskoðun þessara þátta. Nú hafa tíu algengustu námskeiðin á vegum Björgunarskólans verið endurskoðuð sem sérstaklega eru ætluð ferðaþjónustunni, m.a. með áherslu á forvarnir og öryggismál.
Tíu algengustu námskeiðin:
- Fyrsta hjálp 1
- Rötun
- Vettvangshjálp í óbyggðum (WFR)
- Öryggi við sjó og vötn
- Sprungubjörgun
- Fjallamennska
- Ferðamennska
- Snjóflóð 1
- Straumvatnsbjörgun (SRT)
- GPS
Eru þetta m.a. fyrirbyggjandi námskeið með það að markmiði að efla fagmennsku á sviði afþreyingarferðamennsku í ferðaþjónustu.
Þrír starfsmenntasjóðir; Starfsafl, Landsmennt og SVS styrktu vinnu við endurskoðun á námsefni og svæði Björgunarskólans á heimasíðu Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem nú er orðið aðgengilegra fyrirtækjum í ferðaþjónustu.
Sérstök afsláttarkjör bjóðast fyrirtækjum sem eru aðilar í Samtökum ferðaþjónustunnar og/eða í VAKANUM, en þau fá 20% afslátt af námskeiðum Björgunarskólans.
Námskeið sem svara betur kröfum ferðaþjónustunnar
Ég tel að mjög mikilvægt sé að nú sé hægt að bjóða upp á námskeið af þessu tagi sem svara betur kröfum ferðaþjónustunnar, segir María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Aukin áhersla er á forvarnir og öryggismál í þeirri ört vaxandi grein sem ferðaþjónustan er. Einna mestur vöxtur hefur orðið meðal afþreyingarfyrirtækja og því mikilvægt að geta boðið upp á námskeið á sérstökum afsláttarkjörum sem svara þeim kröfum sem gerðar eru í Vakanum- gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar.
María segir að með þessu samstarfi leggi Samtök ferðaþjónustunnar sitt af mörkum við að uppfylla kröfur greinarinnar og starfsmanna um aukna fræðslu og þar með efla öryggi og fagmennsku í greininni.
Starfið er mikilvægt
Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir samstarfið mikilvægt. Mikil aukning á fjölda ferðafólks sem nýtir sér afþreyingarferðaþjónustu gerir til okkar meiri kröfur um að öryggismál séu í lagi. Slysavarnafélagið Landsbjörg býr yfir mikilli þekkingu og reynslu í þeim málaflokki og hefur verið virkt í slysavörnum ferðamanna í áratug. Það hefur skilað sér inn í námskeið Björgunarskólans og aukið öryggisvitund björgunarsveitafólks í þeim verkefnum sem þær sinna. Þátttaka SL í þessu samstarfi er því hluti af því mikla forvarnastarfi sem unnið er í öryggismálum ferðafólks innan félagsins.