Samtök um söguferðaþjónustu álykta um mikilvægi menningararfsins
Á 350 ára afmælisdegi Árna Magnússonar handritasafnara í dag, sendu Samtök um söguferðaþjónustu frá sér þrjár ályktanir sem samþykktar voru á félagsfundi samtakanna á dögunum.
Allar varða þær mikilvægi þess að standa vörð um íslenskan menningararf og -minjar fyrir land, þjóð og vaxandi ferðaþjónustu, eins og segir í tilkynningu frá samtökunum.
Sýning og varðveisla handritanna
Fyrir það fyrsta eru stjórnvöld hvött til að tryggja fjármagn til viðeigandi gæslu og umbúnaðar vegna handritasýningar í Þjóðmenningarhúsi svo að ferðamenn sem og Íslendingar geti áfram séð þar hluta þeirra þjóðargersema sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum varðveitir og eru á heimsminjaskrá UNESCO. Jafnframt verði settur kraftur í að búa handritunum veglegan sýningar- og varðveislustað til framtíðar með byggingu á húsi íslenskra fræða enda eru íslenskar miðaldabókmenntir merkasta framlag Íslands til heimsmenningarinnar og þýðingarmiklar fyrir íslenska ferðaþjónustu.
Niðurskurður á fjármagni til fornleifarannsókna
Í annan stað er niðurskurður á fjármagni til fornleifarannsókna harmaður og stjórnvöld hvött til að tryggja fé til aukinna rannsókna á sögustöðum og minjum um allt land. Slíkar rannsóknir eru ein forsenda þess að ferðamenn, íslenskir sem erlendir, geti fræðst um og notið menningararfleifðar Íslendinga, segir í ályktuninni.
800 ár frá fæðingu Sturlu Þórðarsonar
Í þriðja lagi er athygli stjórnvalda og viðeigandi menningarstofnana vakin á því að árið 2014 verða liðin 800 ár frá fæðingu eins merkasta skálds þjóðarinnar, Sturlu Þórðarsonar. Sturla var lærisveinn Snorra Sturlusonar og skrifaði Íslendinga sögu Sturlungu auk fjölda annarra sagna og kvæða sem eru á meðal þess merkasta í íslenskum miðaldabókmenntum. Samtökin hvetja til þess að tímamótanna verði minnst með veglegum hætti og arfleifð Sturlu gerð sýnileg í Dölunum þar sem hann lifði og bjó sem lögsögumaður, lögmaður og sagnaritari til 1284.