Sex þúsund brottfarir erlendra farþega í október
Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um sex þúsund í nýliðnum októbermánuði samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia, eða 96,4% færri en í október 2019, þegar brottfarir voru um 163 þúsund talsins. Langflestar brottfarir má rekja til Pólverja eða ríflega fjórðung (26,8%).
Alls fór 9.801 farþegi úr landi um Keflavíkurflugvöll í október þannig að hlutfall útlendinga var 60%. Íslendingar voru 3.878 talsins eða 40%. Í sama mánuði í fyrra fóru 259.702 úr landi, 75% þeirra útlendingar.
Tæp hálf milljón frá áramótum
Þetta er fimmti mánuður ársins þar sem erlendum brottförum hefur fækkað um og yfir 95% eins og sjá má af töflunni hér til hliðar.
Frá áramótum hafa um 467 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 73% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra en þá voru brottfarir erlendra farþega um 1,7 milljón talsins.
Ferðir Íslendinga utan
Brottfarir Íslendinga voru 3.878 talsins í október eða 93,2% færri en í sama mánuði fyrir ári. Frá áramótum (janúar-október) hafa um 125 þúsund Íslendingar farið utan en um er að ræða um 398 þúsund færri brottfarir en á sama tímabili í fyrra. Nemur fækkunin 76,1% milli tímabila.
Nánari upplýsingar
Nánari skiptingu á milli þjóðerna má sjá í töflunni að neðan og frekari upplýsingar eru undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.
Niðurstöður um brottfarartalningar má jafnframt nálgast í Mælaborði ferðaþjónustunnar undir liðnum Farþegar.