Fara í efni

Síðasta skemmtiferðaskip sumarsins

skemmtiferðaskip
skemmtiferðaskip

Við Skarfabakka í Reykjavík liggur nú síðasta skemmtiferðaskip sumarsins. Skipið, sem ber nafnið Emerald Princess, hefur viðkomu hér á landi á leið sinni frá Belfast á Norður Írlandi til Bandaríkjanna.

Um borð eru 3.016 farþegar og um það bil 1.500 manns eru í áhöfn. Emerald Princess er  113.000 brúttótonn og er með allra stærstu skipum sem komið hafa til hafnar í Reykjavík. Samkvæmt uppsláttarbókinni Cruising and Cruise Ships, útgefin af Berlitz, fær skipið 4 stjörnur af 5 mögulegum.

Með komu Emerald Princess hafa alls 67.680 farþegar  komið með skemmtiferðaskipum  til  Íslands í sumar og er það aukning frá því árið 2008 en þá komu alls 59.308 farþegar. Þess má geta að skipin eru færri í ár eða 80 talsins samanborið við 83 í fyrra en þó koma fleiri farþegar sem skýrist af því að skipin eru stærri.

Meðfylgjandi mynd var tekin af Emerald Princess við Skarfabakka í morgun.