Síldarminjasafnið á Siglufirði verður Síldarminjasafn Íslands
Á páskadag var stofnuð sjálfseignarstofnunin Síldarminjasafn Íslands. Stofnendur eru Félag áhugamanna um minjasafn og Siglufjarðarbær. Stofnframlög hvors aðila fyrir sig eru húseignir, lóðir og allir munir þeir sem fram að þessu hafa myndað Síldarminjasafnið.
Tilgangurinn með þessari breytingu er að einfalda eignarhald og rekstur ásamt því að skerpa og styrkja stöðu safnsins á landsvísu, eftir því er fram kemur í frétt. Í samræmi við það var nafninu breytt úr Síldarminjasafnið á Siglufirði í Síldarminjasafn Íslands ses.
Þjóðminjasafnið skipar nú fulltrúa í stjórn safnsins og er það Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður. Auk hennar voru kjörnir í þriggja manna stjórn, Runólfur Birgisson, bæjarstjóri og Hafþór Rósmundsson, formaður Félags áhugamanna um minjasafn (Fáum). Varamenn eru Ólafur Kárason, formaður bæjarráðs, Hinrik Aðalsteinsson, ritari Fáum og Ágúst Georgsson frá Þjóðminjasafninu. Þá var Örlygur Kristfinnsson ráðinn forstöðumaður Síldarminjasafnsins.