Fara í efni

Símenntunarverkefni til eflingar ferðaþjónustu á Norðurlandi

HraunOxnadal
HraunOxnadal

Farskóli Norðurlands vestra, Ferðamálasetur Íslands, Fræþing, Hólaskóli, Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi og SÍMEY hafa sameinast í verkefni sem hlotið hefur nafnið: "Samkennd - samvinna - samkeppni" og verður unnið til eflingar ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Verkefnið byggir á því að með öflugu fræðslustarfi megi skapa þá menningu að ferðaþjónustuaðilar á svæðinu upplifi sig sem nána samstarfsaðila sem hafi sameiginlegra hagsmuna að gæta og myndi eina heild í tengslum við markaðssetningu, móttöku á ferðamönnum og þróun ferðaþjónustu á öllu svæðinu.

Hönnuð verður námskrá með greinargóðum markmiðslýsingum fyrir hvern námsþátt, sem fylgt verður eftir með um 40 klukkustunda löngu námskeiði í febrúar og mars 2005.
Vonast er til að 20-30 þátttakendur úr hópi stjórnenda þeirra u.þ.b. 300 fyrirtækja sem starfa að ferðaþjónustu á umræddu svæði og sveitarstjórnarmenn eða starfsmenn sveitarfélaga, sem hafa með ferðamál að gera, muni sitja námskeiðið og líta á það sem fyrsta skref í markvissu framtíðarstarfi allra ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi.

Námskeiðið byggir á fjórum eftirfarandi námsþáttum:

  • Hugmyndafræðin: "Ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi sem ein heild"
  • Samvinna og samskipti
  • Gæða- og öryggismál
  • Fagmennska

Áhersla verður lögð á fjölbreyttar kennsluaðferðir og að tengja svæðin saman með því að staðsetja námskeiðin víða auk þess sem fjarfundabúnaður verður notaður.

Verkefnið hefur hlotið styrk frá Starfsmenntaráði en vonir standa til að nákvæm námskrá og markmiðslýsingar geri mögulegt að koma innihaldi námskeiðsins á framfæri við þátttakendur og tryggja góða heildarmynd þrátt fyrir að fjölmargir aðilar komi að verkefninu. Hugmyndin að verkefninu byggir auk þess á að hægt verði að nota módelið á hvaða landsvæði sem er til að samræma vinnu ferðaþjónustuaðila og auka markvisst samstarf.

Nánari upplýsingar gefur Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar - SÍMEY, Þórsstíg 4, 600 Akureyri.
Sími: 460-5720 simey@simey.is Sjá einnig heimasíðu Símey.