Fara í efni

Skaftafell opnað á ný eftir gos

Skaftafell
Skaftafell

Hreinsun á ösku hefur gengið hratt og örugglega fyrir sig í suðurhluta Vatnajökulsþjóðgarðs, Skaftafelli. Verður svæðið formlega opnað á ný í dag kl 17, aðeins 2 dögum eftir að öskufalli lauk.

„Við rýmdum svæðið á laugardagskvöldinu, rétt eftir að gosið hófst, en strax í gær byrjuðum við að hreinsa svæðið – eða um leið og lögreglan opnaði veginn aftur,“ segir Regína Hreinsdóttir, þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, í Skaftafelli.  „Sem betur fer hefur mikið af öskunni fokið í burtu en við höfum verið að hreinsa hér á fullu milli húsa, snyrtiaðstöðu og fleira. Við erum langt komin með þessa vinnu, allt er orðið mjög fínt hjá okkur og nú erum við tilbúin að taka á móti gestum á nýjan leik!“

Regína og aðrir starfsmenn á svæðinu nutu aðstoðar fimm bæjarstarfsmanna frá Höfn í Hornafirði og tveggja sjálfboðaliða frá björgunarsveitum og segir hún þá aðstoð hafa verið afar kærkomna: „Ég tel ekki að gosið muni draga úr fjölda gesta sem leggja leið sína á svæðið í sumar. Við finnum strax að fólk vill koma hingað og tókum á móti þó nokkrum ferðamönnum bæði í dag og í gær. Þeir hafa m.a. gengið að Svartafossi  og ég býst við að allt falli fljótlega í sinn farveg,“ segir Regína og bendir á að þó landverðir lendi ekki oft í svona aðstæðum þá séu þau vön því að annasamt sé á þessum árstíma.

Aðdáunarvert hreinsunarstarf
„Sem gamall landvörður dáist ég að starfsfólki þjóðgarðsins sem hefur unnið hreint aðdáunarvert starf hér,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.  „Svæðið var rýmt vegna öskufalls og eldgoss og nú örfáum dögum síðar eru bæði starfsfólk og sjálfboðaliðar búin að  gera það kleift að hægt er að opna aftur! Þetta sýnir hversu gott starfsfólk við höfum á vettvangi og einnig þann frábæra samtakamátt sem við Íslendingar erum fær um að virkja þegar á bjátar.“

Ólöf bendir á að helstu sérfræðinga á sviði jarðvísinda segi að gosið í Grímsvötnum hafi hegðað sér á mjög svipaðan  hátt og önnur slík gos, og afar ólíklegt sé því að áhrif þess nái nú út fyrir Grímsvatnasvæðið þótt það malli eitthvað áfram. „Auðvitað fer um mann þegar svona stórt gos byrjar en hið jákvæða er auðvitað að fólk var vel undirbúið og öll viðbrögð voru skjót og fumlaus. Þá hefur fólkið hér á svæðinu sýnt ótrúlegt æðruleysi! Sem betur fer varði öskugosið stutt og röskun á flugi hefur verið tiltölulega lítil. Við teljum þetta því vekja enn frekar athygli á þeirri staðreynd að Ísland er eldfjallaeyja - og sú athygli er í raun jákvæð. Þá beinir gosið jafnframt athyglinni að Vatnajökulssvæðinu og þjóðgarðinum sjálfum, sem er sá stærsti í Evrópu!“

Gestir byrjaðir að koma
Á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs kemur fram að um leið og þjóðvegur 1 var opnaður á ný hófu gestir að streyma í Skaftafell og var gist bæði í tjöldum og húsbílum á tjaldsvæðinu í nótt. Meðfylgjandi mynd var einmitt tekin af fyrsta tjaldgestinum. Á laugardag verður svo veitingasalan í Skaftafellstofu opnuð í fyrsta sinn í sumar og þar með er full sumarstarfsemi komin í gang.