Skipun starfshóps um akstur í óbyggðum
Umhverfisráðuneytið hefur, í samráði við samgönguráðuneytið, skipað starfshóp sem á að gera tillögur um hvaða vegir og slóðar í óbyggðum skuli teljast til vega með hliðsjón af afdráttarlausu ákvæði um bann við akstri utan vega í náttúruverndarlögum.
Stemma stigu við utanvegaakstri
Þetta er liður í viðleitni ráðuneytisins til að stemma stigu við akstri utan vega, sem er viðvarandi vandamál þrátt fyrir aukna fræðslu og eftirlit á undanförnum árum. Árni Bragason, sviðsstjóri náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun, er formaður hópsins, en auk hans eiga sæti í honum þau Eydís Líndal Finnbogadóttir frá Landmælingum Íslands og Eymundur Runólfsson frá Vegagerðinni. Til grundvallar starfi hópsins liggur vinna Landmælinga og Vegagerðarinnar, sem hafa mælt út um 22.000 km af vegum og slóðum á undanförnum árum. Starfshópurinn mun skoða kort af slóðunum og meta hverjum má halda opnum fyrir umferð og hverjum skal loka af náttúruverndarástæðum.
Þegar tillögur starfshópsins liggja fyrir munu þær kynntar og ræddar við viðkomandi sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila og það rætt hvernig best verði að hrinda tillögum hópsins í framkvæmd. Akstur utan vega er bannaður samkvæmt náttúruverndarlögum, en erfitt hefur verið í raun að taka á sumum brotum þegar menn aka á slóðum í óbyggðum og telja sig vera á leyfilegum ökuleiðum.
Umhverfisráðuneytið hyggst á næstunni boða hagsmunaaðila, félagasamtök og aðra á samráðsfund, þar sem starf starfshópsins verður kynnt og rætt um aðrar leiðir til að taka á akstri utan vega.