Skýrsla um árangur Iceland on the Edge
Út er komin skýrsla um Íslandshátíðina Iceland on the Edge sem haldin var í Brussel á síðasta ári fyrir forgöngu sendiráðs Íslands. Ferðamálastofa var meðal samstarfsaðila verkefnisins. Markmið skýrslunnar er að gefa yfirsýn yfir verkefnið og meta árangur þess.
Fram kemur að gestir á alla viðburði/sýningar verkefnisins voru á bilinu 50-70.000 talsins og að fjölmiðlaumfjöllun hafi náð til að lágmarki 20 milljón manns. Samkvæmt fjölmiðlagreiningu Auxipress er áætlað auglýsingaverðmæti blaða- og sjónvarpsumfjöllunar yfir 200 milljónir íslenskra króna. Það er um 4 sinnum sú fjárhæð sem íslenskir aðilar lögðu í verkefnið.
Samkvæmt fjórum af fimm ferðaskrifstofum sem sendiráðið vann með hafði fyrirspurnum um Ísland fjölgað og sala ferða einnig aukist kringum hátíðina og í kjölfar hennar. Þá sýna gistináttatölur að gistinóttum Belga á Íslandi fjölgaði um 18,3% miðað við árið 2007 sem e.t.v. má rekja að hluta til verkefnisins. Mest var fjölgunin í júlí og ágúst 2008.
Kynningarmánuður á íslenskum sjávarafurðum var haldinn í 135 verslunum Delhaize matvörukeðjunnar í Belgíu í október 2008. Raunaukning á sölu íslenskra sjávarafurða var 4%, mest 8% á þorski. ?Til viðbótar hefur tengslanet Íslands margfaldast og miðað við tímann sem liðinn er frá hátíðinni má áætla að hún hafi fjölgað íslandstengdum viðburðum í Belgíu,? segir í skýrslunni.
Skýrslan í heild: Iceland on the Edge - Skýrsla um Íslandshátíð í Brussel