Snæfellingar hlutu Skipulagsverðlaunin 2014
Svæðisskipulag Snæfellsness 2014 2026, Andi Snæfellsness Auðlind til sóknar, hlaut í liðinni viku Skipulagsverðlaunin 2014 sem Skipulagsfræðingafélag Íslands stendur fyrir. Áhersla verðlaunanna í ár var á skipulagsgerð í tengslum við ferðaþjónustu.
Náið samstarf við íbúa og atvinnulíf
Ráðgjafafyrirtækið Alta vann svæðisskipulagið en það því standa sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi: Snæfellsbær, Stykkishólmur, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit. Mótun svæðisskipulagsins hefur verið í nánu samstarfi við samtök í atvinnulífinu og íbúa á Snæfellsnesi sem standa með sveitarfélögunum að verkefni um stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi.
Dómnefnd var skipuð fulltrúum frá Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Arkitektafélagi Íslands, Tæknifræðingafélagi Íslands, Verkfræðingafélagi Íslands, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Ferðamálastofu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Björn Jóhannsson umhverfisstjóri sat í dómnefnd fyrir hönd Ferðamálastofu.
Getur orðið öðrum fyrirmynd
Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna kemur meðal annars fram:
Að mati dómnefndar er svæðisskipulagið afar vel unnið, mun nýtast vel til aðalskipulagsgerðar fyrir sveitarfélögin á svæðinu og er góð fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög. Vel er að staðið að greiningum á svæðinu sem og aðgerðaráætlun til framtíðar. [...] Skipulagsverkefnið felur jafnframt í sér nýbreytni við skipulagsgerð hvað varðar samvinnu sveitarfélaga á svæðisvísu við fulltrúa úr atvinnulífinu og íbúa, en þessir aðilar unnu sem einn hópur að svæðisskipulaginu. Ennfremur er svæðisskipulagsgerðin hluti af undirbúningi og þróun Svæðisgarðsins Snæfellsness, sem er frumkvöðlastarf á Íslandi hvað varðar samvinnu um atvinnu- og byggðaþróun á svæðisvísu.
Snæfellskt ferðalag
Í svæðisskipulaginu er leitað leiða til að styrkja ímynd Snæfellsness og auka fjölbreytni í atvinnulífi og mannlífi. Þar er m.a. sett fram stefna um snæfellskt ferðalag. Skilgreindar eru fjölmörg markmið og leiðir að þeim sem ætlað er að stuðla að því að ferðalangar á Snæfellsnesi finni fyrir sterkum anda svæðisins, njóti góðrar þjónustu, spennandi upplifunar og áhugaverðrar afþreyingar á fjölbreyttum ferðaleiðum og áfangastöðum sem dreifast um allt Snæfellsnes. Mikilvægur þáttur hér er einnig þróun matvæla í heimbyggð í samstarfi við bændur og aðila í sjávarútvegi, sem er ætlað að efla matarmenningu og framboð staðbundinna matvæla.
Allar tillögur til sýnis
Allar tillögurnar sem bárust voru til sýnis á verðlaunaafhendingunni í Ráðhúsinu og sköpuðust góðar
umræður um mikilvægi samþættingu skipulagsgerðar við náttúruna, byggt umhverfi sem og þátt ört
vaxandi ferðaþjónustu í skipulagi.
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Skipulagsfræðingafélagsins og
Svæðisskipulag Snæfellsness má finna í heild sinni á heimasíðu Svæðisgarðs Snæfellsness: