Fara í efni

Sólheimar vekja athygli erlendis

SolheimarGrimsnesi
SolheimarGrimsnesi

Nýlega var fjallað um Sólheima í Grímsnesi í tveimur tímaritum, öðru bandarísku og hinu bresku, sem fjalla um umhverfismál og sjálfbæra þróun. Þar kemur fram að Sólheimar eru taldir eitt besta dæmið í veröldinni um sjálfbært byggðahverfi.

Besta dæmið um sjálfbært samfélag í veröldinni
Í frétt á heimasíðu Sólheima er sagt frá því að Bandaríska tímaritið Communities, sem dreift er í Bandaríkjunum og Canada, birti nýverið ítarlegan greinaflokk um sjálfbær samfélög og Eco-villages. Í tímaritinu er birt ítarleg grein um Sólheima, þar sem fram kemur m.a. að Sólheimar séu elsta Eco-villages í heimi og sennilega besta dæmið um sjálfbært samfélag í veröldinni. Telur blaðið að í heiminum séu um 15 þúsund byggðir sem leggi áherslu á sjálfbæra þróun.

Sönnun þess að sjálfbær þróun er möguleg
Fyrir nokkru birti breska tímaritið Ecologist, útbreiddasta umhverfisrit Bretlands, ítarlegan greinaflokk um sjálfbæra þróun. Í opnu þess blaðs er birt heimskort, þar sem tilgreindar eru 13 byggðir, þar af aðeins sex í Evrópu, sem sannað hafa það með starfi sínu að gera sjálfbæra þróun að veruleika. Þar eru Sólheimar nefndir sérstaklega sem ein byggð af sex í Evrópu, sem sönnun þess að sjálfbær þróun er möguleg.