Fara í efni

Stefnir í samnorrænt flokkunarkerfi fyrir gististaði

PaulEllerTorbenKaas
PaulEllerTorbenKaas

Árið 1999 samdi Ferðamálaráð Íslands við Horesta, samtök veitinga og gistihúsa í Danmörku, um að nota flokkunarkerfi þeirra fyrir gististaði hér á landi. Frá þeim tíma hefur fulltrúi frá Horesta komið hingað til lands árlega til að fylgjast með að flokkunin sé í samræmi við kröfur samtakanna.

Ánægja með framkvæmdina hérlendis
Fulltrúar Horesta voru satddir hér í vikunni og ferðuðust um í fylgd Elíasar Bj. Gíslasonar, forstöðumanns upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálaráðs, sem hefur frá upphafi haft umsjón með flokkunarkerfinu hér á landi. Í ferðinni voru gististaðir á Reykjanesi, Suðurlandi og Reykjavík heimsóttir. Að þessu sinni voru fulltrúar Horesta tveir. Paul Eller, sem á sínum tíma þróaði danska flokkunarkerfið og kom því á, var nú í sinni fimmtu en jafnframt síðustu Íslandsferð á vegum samtakanna þar sem hann er að láta af störfum fyrir aldurs sakir. Eftirmaður hans er Torben Kaas og kom hann með til að kynnast aðstæðum hér á landi. Báðir voru þeir að sögn Elíasar ánægðir með ferðina og sáttir við framkvæmd flokkunarinnar.

Samnorrænt flokkunarkerfi
Að sögn Elíasar hefur flokkunarkerfi Horesta verið að vinna á og ná meiri útbreiðslu. Það hefur verið notað í Danmörku, Íslandi og Grænlandi undanfarin ár, nú eru Svíþjóð og Færeyjar að bætast í hópinn og Norðmenn hafa sýnt mikinn áhuga þannig að líklegt má telja að þeir bætist við innan skamms. "Þetta er afar ánægjuleg þróun því ef tekst að fá Finna með þá verður til samnorrænt flokkunarkerfi fyrir gistingu sem ég held að væri mjög góður áfangi. Eins og staðan er í dag er ekkert samræmt kerfi til, hvorki fyrir Evrópu, hvað þá á heimsvísu. Megintilgangur svona flokkunarkerfis er ávallt að stuðla að auknum gæðum gistingar og að viðskiptavinir eigi auðveldara með að velja sér þá þjónustu sem þeir sækjast eftir," segir Elías.

Kerfið þróað áfram
Danir eru að undirbúa breytingar á flokkunarviðmiðunum sem notuð eru og segir Elías í skoðun hvort sams konar breyting verði gerð hér á landi. Hér sé þó alls ekki um neina grundvallarbreytingu að ræða. Annað sem hugsanlega breytist með útvíkkun kerfisins sé að komið verði á fót samnorrænni úrskurðarnefnd til að þróa kerfið áfram og skera úr um ágreiningsatriði en til þessa hafa úrskurðarnefndir starfað í hverju landi fyrir sig.

Viljum sjá meiri þátttöku
Sem fyrr er sagt voru dönsku gestirnir ánægðir með það sem þeir sáu hérlendis enda segir Elías að gæðamál þeirra gististaða sem tekið hafa þátt í flokkuninni séu almennt í mjög góðu lagi. "Vissulega vildum við sjá fleiri íslenska gististaði nýta sér kerfið en um 45% gistirýmis í landinu er nú flokkað samkvæmt kerfi Horesta. Mér finnst umhugsunarefni hvers vegna við sjáum ekki enn fleiri taka kerfið upp því kostirnir eru augljósir og kostnaðurinn að mínu mati mjög hóflegur. Þó er ánægjulegt að flestir sem koma á fót nýjum gististöðum eða fara í verulega endurnýjun á aðstöðunni hjá sér horfa til flokkunarkerfisins hjá okkur. Ég vildi þó gjarnan sjá fleiri stíga skrefið til fulls og taka þátt með formlegum hætti," segir Elías.