Fara í efni

Stöðugt aukin vefumferð

vefumferð
vefumferð

Gestum sem heimsækja landkynningarvef Ferðamálastofu, www.visiticeland.com fjölgar stöðugt. Frá áramótum nemur aukning umferðar rúmum 35% sem bætist við verulegan vöxt undanfarinna ára.

Um 140-150 þúsund gestir heimsækja nú vefinn í hverjum mánuði en til samanburðar var gestafjöldinn fyrir 5 árum um 10-15 þúsund á mánuði. Umferðin er að jafnaði mest yfir hásumarið, það dregur úr henni á haustin en síðan fer allt á fulla ferð aftur eftir áramótin. Halldór Arinbjarnarson, vefstjóri Ferðamálastofu, segir aukna umferð eiga sér fleira en eina skýringu. Almenn aukin netnotkun í heiminum er ein ástæðan en aukinn sýnileiki vefsins í kynningarefni og á leitarvélum sé þó meginskýringin á fjölgun gesta. ?Leitarvélar gegna algeru lykilhlutverki fyrir vef sem þennan,? segir Halldór.

Yfirgripsmesti kynningarvefurinn
?Hins vegar er það eitt og sér að ná sem flestum heimsóknum á vefinn ekki meginmarkmiðið heldur miklu frekar að þeir sem inn á vefinn koma finni þar áhugavert efni fái í kjölfarið áhuga á því að heimsækja Ísland. Þess vegna er mikil áhersla lögð á innihald vefsins og að uppfæra það reglulega. Lykilatriði í þessu sambandi er gagnagrunnur Ferðamálastofu. Í honum eru nú upplýsingar um vel á annað þúsund ferðaþjónustuaðila um allt land, ásamt ýmsum hagnýtum upplýsingum fyrir ferðafólk. Ég get fullyrt að visiticeland.com er yfirgripsmesti kynningarvefur Íslands fyrir ferðamenn og í daglegri þróun hvað efni og innihald varðar,? segir Halldór.

Fleiri tungumál bætast við
Útbreiðslusvæði vefsins, ef svo má segja, hefur einnig verið að aukast með fjölgun tungumála og hann er nú á 7 erlendum tungumálum. Fyrr á árinu bættust sænska og norska við og nú er hollensk og ítölsk útgáfa í vinnslu. Jafnframt verður visiticeland.com og landkynningarvefir skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt, sem eru á slóðinni www.icetourist.de, innan tíðar sameinaðir undir visiticeland.com sem ætti enn að auka umferð. Auk visiticeland.com er skrifstofa Ferðamálaráðs í Bandaríkjunum með landkynningarvefinn www.icelandtouristboard.com.

Evrópugáttin í þróun
Enn ein stoðin í kynningu Íslands á vefnum er Evrópugáttin svonefnda, www.visiteurope.com, sem opnuð var fyrr á árinu. Þar hefur hvert land sitt svæði og ber ábyrgð á að koma sér sem best á framfæri. Evrópugáttin er einkum hugsuð fyrir fjærmarkaði og er í stöðugri þróun. Verður spennandi að sjá hver reynslan verður af vefnum þegar fram í sækir.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig gestum visiticeland.com hefur fjölgað undanfarin ár.