Stöðuskýrsla (Q4) Evrópska ferðamálaráðsins - European Tourism: Trends and prospects
Fjórða ársfjórðungsskýrsla Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) fyrir árið 2020 kom út fyrir helgi en þar er fjallað um þróunina í ferðaþjónustu á nýliðnu ári með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum sem og horfurnar framundan. Fyrri ársfjórðungsskýrslum* hefur áður verið gerð stuttlega skil með fréttum á vefsíðu Ferðamálastofu.
Versta ferðamannaárið í 30 ár
Umfjöllun skýrslunnar snýst líkt og hinar fyrri um þau áhrif sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á ferðaþjónustuna. Árið 2020 er versta ferðaár sem um getur í sögu greinarinnar síðustu þrjá áratugina. Til marks um hversu hrikaleg áhrif faraldurinn hefur haft þá fækkaði alþjóðlegum komum á heimsvísu um 73% milli ára 2019-2020 og innanlandsferðum um 34%.
Á heildina litið fækkaði alþjóðlegum komum ferðamanna í Evrópu um 69%. Öll aðildarlönd ETC upplifðu metfækkun eða á bilinu 51-85%. Hjá einu af hverjum þremur löndum var fækkunin á bilinu 70-79% og var Ísland í þeim hópi. Innanlandsferðum fækkaði hins vegar minna í Evrópu eða um 35%.
Gisting og flug orðið illa úti
Gisting hefur orðið illa úti í faraldrinum um alla Evrópu. Hrun í eftirspurn varð til þess að mörg hótel þurftu að vera með lokað mest allt árið 2020, og metlækkun varð í nýtingu. Fyrirliggjandi gögn gefa til kynna að nýtingin hafi minnkað mest á árinu 2020 frá fyrra ári í suðurhluta Evrópu eða um 58% en minnst í norðurhluta Evrópu eða um 50%. Aflétting takmarkana þegar kemur að ferðalögum innanlands og aukin eftirspurn frá heimamönnum gerði það að verkum að hluti hótela í Evrópu gat verið með opið síðastliðið sumar.
Hvað varðar flug, þá fóru farþegaflutningar í Evrópu niður um 69,3% á árinu 2020 í samanburði við 2019. Vonir um hægfara bata á árinu 2021 urðu að engu þegar hertar takmarkanir á landamærum tóku gildi í Evrópu. Árið 2021 verður þar af leiðandi krefjandi fyrir evrópsk flugfélög en skv. síðustu alþjóðlegu spá IATA munu þau verða fyrir meira tapi á árinu en önnur svæði heimsins.
Horfurnar
Þrátt fyrir hátt smithlutfall síðustu vikurnar í Evrópu hefur víðtæk dreifing, prófanir og smitrakning vakið von um að draga megi úr ferðatakmörkunum. Gert er ráð fyrir að bati ferðaþjónustunnar verði hægfara en vel sýnilegur á seinni hluta ársins 2021. Spár gefa hins vegar til kynna að ferðaþjónustan verði ekki komin á þann stað sem ferðaþjónustan var árið 2019 fyrr en árið 2023.
Óvissan er mikil en gert er ráð fyrir að víðtæk dreifing bóluefnis muni strax hafa áhrif á ferðaplön fólks. Reglubundin könnun ETC um ferðavilja Evrópubúa, síðast framkvæmd í árslok 2020 bendir til að um 54% Evrópubúa hafi áform um að ferðast næstu sex mánuðina eða fram í júlí. Eftirspurnin eftir ferðalögum er því til staðar. Mesta áhyggjuefni Evrópubúa snýr að heilsufarslegu öryggi þegar að ferðalögum kemur. Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að um 16% hafi áhyggjur af fluginu en þetta er lægsta hlutfall sem hefur mælst frá því könnunin var fyrst gerð (sept. 2020). Niðurstöður sömu könnunar gefa til kynna að um 67% Evrópubúa telji að strangar öryggis- og sóttvarnarráðstafanir byggi upp traust og geri ferðalagið ánægjulegra. Áfangastaðir standa því frammi fyrir miklum áskorunum þegar hægt verður að ferðast á ný.
Efnistök skýrslu
*Umfjöllun um fyrri ársfjórðungsskýrslur: