Styrkir til skipulags og hönnunar áfangastaða fyrir ferðamenn
Ferðamálastofa auglýsir eftir umsóknum um styrki til skipulags á áfangastöðum fyrir ferðamenn sem ekki eru í eigu eða umsjón ríkisins. Um er að ræða 3 - 4 styrki að upphæð allt að kr. 3 milljónir. Um getur verið að ræða þarfagreiningu, stefnumótunar-, skipulags- og hönnunarvinnu. Athugið ekki er um framkvæmdastyrk að ræða.
Lögð er áhersla á heildaryfirbragð áfangastaðar þar sem staðarvitund og vistvæn nálgun eru sett í öndvegi.
Umsóknarfrestur:
Umsóknarfrestur er til og með 31. október 2012. Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar. Styrkþegar verða kynntir á Ferðamálaþingi 22. nóvember 2012.
Við undirbúning umsóknar skal hafa eftirfarandi í huga:
- Afurð verkefnisins skal vera heildarskipulag, hönnun og framtíðarsýn fyrir áfangastaðinn.
- Skilyrt er að um sé að ræða áfangastaði sem eru opnir almenningi og að aðgengi allra verði tryggt sem frekast er kostur.
- Að jafnaði getur styrkur ekki numið hærri upphæð en 75% heildarkostnaðar.
- Við yfirferð umsókna er tekið mið af markmiðum ferðamálaáætlunar 2011-2020, sjálfbærnisjónarmiðum, nýnæmi o.fl.
- Við hönnunina skal horft til áherslna Ferðamálastofu er varða skipulag og hönnun, útlit og gæði mannvirkja og merkinga sem koma m.a. fram í "Ferðamálaáætlun 2011-2020", “Menningarstefnu í mannvirkjagerð”, leiðbeiningarritinu „Góðir staðir“ og „Handbók um merkingar á ferðamannastöðum og friðlöndum”.
- Við mat á umsóknum er horft til gæða og trúverðugleika umsóknar.
Umsókn og fylgiskjöl
Umsókn skal senda inn á sérstöku umsóknareyðublaði, sjá hér að neðan, og henni þurfa að fylgja tiltekin gögn. Í umsókn og fylgigögnum er kallað eftir eftirfarfarandi upplýsingum:
- Verkefnislýsingu og framtíðarsýn sem lýsir hugmyndinni með rökstuddum og skýrum hætti.
- Kostnaðar- og verkáætlun.
- Skriflegu samþykki allra landeigenda og/eða umsjónaraðila.
- Afriti af gildandi aðalskipulagi og deiliskipulagi ef við á frá viðkomandi sveitarfélagi.
- Afstöðumynd sem sýnir hvernig verkefnið fellur að gildandi aðalskipulagi ef það er til staðar.
- Öðrum gögnum sem styrkt geta umsókn.
Hverjir geta sótt um:
Einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög að uppfylltum ofangreindum skilyrðum.
Hvar ber að sækja um:
Umsóknareyðublað er að finna hér fyrir neðan. Eyðublaðið er á word-formi og er best að byrja á að vista það á eigin tölvu áður en útfylling hefst.
Áður en ráðist er í gerð styrkumsókna
Áður en ráðist er í gerð styrkumsókna er vert að kynna sér neðangreint efni:
- Menningarstefna í Mannvirkjagerð
- Ný Skipulagslög nr. 123/2010
- „Góðir staðir“ - leiðbeiningarrit um uppbyggingu ferðamannastaða (PDF)
- Aðgengi fyrir alla bæklingurinn
- Handbók um merkingar (PDF 8,6 MB)
- Ferðamálaáætlun 2011-2020
Nánari upplýsingar veitir Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður Akureyri
Netfang: elias@ferdamalastofa.is - Sími: 535-5510